Viltu veita öðrum félagsskap, nærveru og hlýju?
Rauði kross Íslands, Fjölskyldusvið Húnaþings vestra, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Þjóðkirkjan hafa ákveðið samstarf um vinaverkefni undir forystu Húnavatnssýsludeildar Rauða krossins. Fjótlega verður auglýst eftir fólki sem vill taka þátt í verkefninu og fara á námskeið því tengdu.
Leitað verður að einstaklingum sem vilja gerast vinir einstaklinga, 18 ára og eldri. Á heimasíðu Rauða krossins segir að vinir eru sjálfboðaliðar sem heimsækja fólk á heimili þess, á stofnanir, sambýli og dvalar- og hjúkrunarheimili. Misjafnt er hvað felst í heimsókn en það getur t.d. verið spjall, gönguferð, ökuferð, upplestur, aðstoð við handavinnu og svo framvegis en reynt er að mæta þörfum og óskum gestgjafa eins og kostur er. Hlutverk heimsóknavina er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Sjálfboðaliðarnir sækja undirbúningsnámskeið hjá Rauða krossinum og eru bundnir trúnaði við þá sem þeir heimsækja.
Myndin er tekin þegar samstarfið var ákveðið en á henni eru Sveindís Lea Pétursdóttir, formaður Húnavatnssýsludeildar Rauða krossins, Guðrún Elín Benonýsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Sigurður Þór Ágústsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Húnaþings vestra, Magnús Magnússon, sóknarprestur í Húnavatnsprestakalli og Henrike Wappler, yfirfélagsráðgjafi fjölskyldusviðs Húnaþings vestra.
Nánari upplýsingar um verkefnið á landsvísu má lesa hér. https://www.raudikrossinn.is/verkefni/innanlandsverkefni/heilbrigdi-og-velferd/vinaverkefni/
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.