Vill skoða aðrar leiðir til að minnka umfang urðunar í Stekkjarvík
Húnahornið greinir frá því að sveitarstjórn Húnabyggðar sé óánægð með að áform um stækkun urðunarsvæðis í Stekkjarvík komi ekki formlega inn á hennar borð áður en stjórn Norðurár samþykkir framkvæmdina endanlega. Þá setur sveitarstjórnin spurningarmerki við að ekki þurfi sérstakt framkvæmdaleyfi frá henni enda áformaðar framkvæmdir umfangsmiklar.
Sveitarstjórn telur eðlilegt að skoðaðar verði aðrar leiðir til að minnka umfang urðunar í Stekkjarvík áður en ráðist verði í stækkun urðunarsvæðisins og er brennsla nefnd sem dæmi.
Á heimasíðu Stekkjarvíkur segir að Urðunarstaðurinn í Stekkjarvík sé rekinn af Norðurá bs. sem er byggðasamlag sveitarfélaga í Skagafirði og Austur Húnavatnssýslu. Þjónustusvæði urðunarstaðarins er þó mest allt Norðurland.
„Urðunarstaðurinn er byggður í landi Sölvabakka, Blönduósi og byggir á leigusamningi við landeigendur um 30 ha. svæði til urðunar. Starfsemi hófst í ársbyrjun 2011 en þá hafði 290.000 m3 urðunarhólf verið tekið, byggt þjónustuhús og sett 100 tonna bílvog. Starfsleyfi er fyrir urðun allt að 21 þús. tonnum árlega. Árið 2012 var bætt við urðunarhólfi fyrir sláturúrgagn og dýrahræ en sá úrgagnsflokkur er urðaður sérstaklega,“ kemur fram á síðunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.