Verkfall Eflingar gæti haft áhrif á olíusölu í Staðarskála

Verkafólk Eflingar, sem starfar hjá Samskipum, Berjaya Hotels, Skeljungi, Edition og Olíudreifingu, hófu ótímabundið verkfall klukkan 12 á hádegi og munu því ekki hefja störf á ný fyrr en félagið aflýsir því. Ljóst er að þessar aðgerðir munu hafa mikil áhrif á höfuðborgarsvæðinu og sérstaklega þegar eldneytisskortur fer að gera vart við sig á bensínstöðvum.

Olíudreifing sinnir allri dreifingu og birgðahaldi á eldsneyti fyrir flest olíufélögin og segir m.a. á heimasíðu Olís það ljóst að samfélags- og efnahagsleg áhrif verkfallsins gætu orðið víðtæk enda sé eldsneytisdreifing forsenda bæði samgangna og flutninga.

„Áhrifanna mun einkum gæta á Stór-Reykjavíkursvæðinu, á Reykjanesi og nokkuð stórum hluta bæði Vesturlands og Suðurlands. Á umræddum svæðum má gera ráð fyrir að eldsneyti á flestum afgreiðslustöðvum muni klárast innan nokkurra daga.“ Sömu sögu er að segja hjá öðrum olíufélögum.

Verkfallið hefur hins vegar ekki teljandi áhrif á eldsneytisdreifingu á Norður- og Austurlandi þar sem birgðastöð Olíudreifingar er á Akureyri. N1 varar þó við því að eldsneytisafgreiðsla í Staðarskála gæti orðið fyrir áhrifum verkfallsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir