Vel lukkuð vígsluafmælishátíð Blönduóskirkju
Þrjátíu ára vígsluafmælishátíð Blönduóskirkju fór fram sunnudaginn 30. apríl og var hún vel sótt. Fram kemur í frétt Húnahornsins að á hátíðinni tilkynni formaður sóknarnefndar, Jón Aðalbjörn Sæbjörnsson, að hjónin Elín S. Sigurðardóttir og Jóhannes Torfason á Torfalæk ætli að gefa orgelsjóði kirkjunnar eina milljón króna. Peningana fengu þau með Landstólpanum, samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar, sem þau hlutu í síðustu viku.
Með fjárframlaginu vilja þau þakka mikilvægt hlutverk kirkjunnar í samfélaginu og minnast 30 ára vígsluafmælis hennar.
Hátíðin sjálf hófst á messu þar sem sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup á Hólum prédikaði og sr. Edda Hlíf Hlífarsdóttir þjónaði fyrir altari. Kirkjukór Blönduóskirkju leiddi safnaðarsöng við undirleik Eyþórs Franzsonar Wechner organista.
Að messu lokinni fóru fram tónleikar þar sem fram komu kirkjukórinn, ásamt Nínu Hallgrímsdóttur sem söng einsöng undir stjórn Eyþórs Franzsonar Wechner, Karlakór Bólstaðahlíðarhrepps sem Skarphéðinn H. Einarssonar stjórnaði og Elvar Logi Friðriksson einsöngvari sem söng við undirleik Eyþórs Franzsonar Wechner. Að tónleiknum loknum var boðið upp á kaffiveitingar í kirkjunni.
Heimild: Húnahornið
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.