Veiruskita í kúm veldur gríðarlegu tjóni austan Tröllaskaga
Vikublaðið á Akureyri greindi frá því í síðasta blaði að tugmilljónatjón hafi orðið vegna smitandi veiruskitu sem herjað hefur á kúabú í Eyjafirði og S-Þingeyjarsýslu en alls eru um 80 kúabú í Eyjafirði og um 40 í S-Þingeyjarsýslu. Haft er eftir Sigurgeir Hreinssyni, framkvæmdastjóra Búnaðarsambands Eyjafjarðar, að veiran hagi sér með svipuðum hætti og kórónuveiran geri gagnvart mannfólki og séu dæmi þess að hún hafi borist inn á bæi í allt að þrígang yfir ákveðið tímabil.
Sigurgeir segir í fréttinni að veiran hafi verið í gangi með stuttum hléum frá því síðla árs 2021 og hafi hún haft viðkomu á nánast hverjum bæ á svæðinu. „Hlé varð í skamma stund en um miðjan desember fór að bera á veirunni á ný í Þingeyjarsýslu. Í upphafi þessa árs barst hún yfir í Eyjafjörð og fór með undraverðum hraða milli bæja.“
Í svari Sigríðar Björnsdóttur, héraðsdýralæknis NV- umdæmis, við fyrirspurn Feykis, segist hún hún ekki hafa fregnir af því, að þetta alvarlega form af veiruskitu, sem gengið hefur í NA umdæmi, sé á Norðurlandi vestra. Bendir hún þó á að sjúkdómurinn sé ekki tilkynningaskyldur þannig að nákvæmar upplýsingar séu ekki fyrir hendi aðrar en þær að um landlægan sjúkdóm er að ræða.
„Engu að síður vil ég brýna fyrir bændum að verja sín bú fyrir smiti með því að hafa stígvél og annan hlífðarfatnað frá búinu tiltækan fyrir alla þjónustuaðila og aðra sem heimsækja búin. Einnig þurfa bændur að hafa varann á sér gagnvart flutningi á tækjum og gripum milli búa.
Parainflúensa í nautgripum er öndunarfærasjúkdómur sem greinst hefur samhliða veiruskitunni í einhverjum tilfellum en útbreiðsla sjúkdómsins er að öðru leyti lítt þekkt hér á landi. Sömu reglur um smitvarnir gilda gagnvart þeim sjúkdómi. Skilaboðin eru: Bóndi ver þitt bú.“
Sigríður hefur eftir Atla Traustasyni, sæðingamanni í Skagafirði, að hann hafi ekki fregnir af því að veiruskita sé að ganga hér í Skagafirði eins og staðan sé og telur að veikin sé ekki í gangi í Húnavatnssýslum heldur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.