,,Varð að finna eitthvað sem ég gæti gert og myndi halda mér vakandi á næturvöktum''
Þórdís Stella Jónsdóttir er 23 ára og er fædd og uppalin á Sauðárkróki. Hún býr ásamt kærastanum í húsi sem þau eru nýlega búin að kaupa og gera upp. Þórdís starfar sem leiðbeinandi á leikskólanum Ársölum.
Hvernig byrjaðir þú og hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? -Ég lærði grunninn í saumum í Árskóla en áhuginn byrjaði þegar ég var krakki og sá hvað konurnar í kringum mig voru flinkar og gerðu mikið fallegt handverk. Held að það hafi verið í byrjun árs 2020 þegar ég byrjaði í vaktavinnu og varð að finna eitthvað sem ég gæti gert og myndi halda mér vakandi á næturvöktum.
Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? -Mér finnst skemmtilegast að prjóna. Hef reynt að hekla en það gekk ekki alveg, þarf sennilega að gera aðra tilraun og vera þolinmóðari.
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? -Engu eins og er, var að klára kjól og eina ungbarnahúfu. Er mikið að skoða uppskriftir núna, það er bara spurning hvað verður fyrir valinu.
Hvar færðu hugmyndir? -Ég fæ flestar hugmyndir á netinu eða í prjóna- og uppskriftabókum.
Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? -Ég held að það sé kjóllinn. Er bæði ánægð með hvernig hann kom út og það var skemmtilegt að prjóna hann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.