„Til hvers að kaupa bók ef þú ætlar ekki að lesa hana?“

Stella með ömmustrákinn, Kristófer Eld Þrastarson.   MYND AÐSEND
Stella með ömmustrákinn, Kristófer Eld Þrastarson. MYND AÐSEND

Bók-haldinu svarar að þessu sinni Kristjana Stefanía Jóhannesdóttir, eða bara Stella, en hún fæddist á Búðum við Fáskrúðsfjörð árið 1961. Fjölskyldan fluttist að austan á Sauðárkrók 1970 og Stella flutti í sveitina 1979 og býr nú á Stóra-Búrfelli í Austur-Húnavatnssýslu ásamt eiginmanni sínum, Jóni Gíslasyni, fyrrum oddvita í Húnavatnshreppi. Stella á fjögur börn og tvö barnabörn, er húsmæðraskólagengin og er „bara“ bóndi eða bóndakona, eins og sumir segja.

Þegar Feykir bankar upp á hjá Stellu í gegnum skilaboða-skjóðu Fésbókarinnar nú um miðjan maí er ekkert sérstakt í deiglunni hjá henni. „Mér finnst gaman að margs konar föndri, mála, lesa og leysa krossgátur þegar ég hef tíma til þess og ég ætla að halda áfram að stunda búskap í sveitasælunni og vera með fjölskyldunni,“ segir hún. „Ég er ekki að lesa neina bók eins og er, það er engin á náttborðinu hjá mér núna, nóg að gera á næturvakt í sauðburði þessa dagana í maí.

Hvers konar bækur lestu helst? „Ég les alls konar bækur, t.d spennusögur, ástarsögur, glæpasögur, þjóðsögur, ættfræði og æviminningar.“

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina? „Skáldsagan Aðalheiður sem er byggð á sannsögulegum atburðum og er úr flokki bóka sem kallast Sígildar skemmtisögur. Svo er alltaf gaman að lesa Íslenskar þjóðsögur og ævintýri.“

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn? „Bækur sem fjalla um ævintýri og þjóðsögur eins og Íslensk ævintýri og þjóðsögur og Grimms ævintýri.“

Hvaða bók er ómissandi eða er einhver ein bók sem hefur sérstakt gildi fyrir þig? „Bókin Upp á líf og dauðasem ég fékk í verðlaun fyrir að taka þátt í ritgerðasamkeppni í skólanum þegar ég var 13 ára gömul.“

Hvaða rithöfundar eða skáld fá hjartað til að slá örar, bíðurðu t.d. spennt eftir bók-um frá einhverjum höfundi? „Ég á ekki neinn uppáhalds rithöfund og bíð ekki eftir að það komi út bók frá einhverju einum höfundi.“

Áttu þér uppáhalds bókabúð? „Nei, en fer stundum í Ey-mundsson og Forlagið.“

Hversu margar bækur heldurðu að þú eignist árlega og lestu þær allar? „Sirka 6-8 og ég reyni að lesa allar bækur sem ég kaupi eða fæ gefins – til hvers að kaupa bók ef þú ætlar ekki að lesa hana?“

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni? „Nei ekki lengur.“

Hvaða bók heldurðu að þú hafir lesið oftast eða er einhver bók sem þér finnst þú ættir að lesa árlega? „Ég les bók aftur ef mér finnst hún skemmtileg og áhugaverð, það er engin bók sem mér finnst ég þurfa að lesa árlega, nema kannski ættfræðibækur ef mann langar að forvitnast um ættfræði.

Hvaða bækur lastu fyrir börnin þín? „Ævintýrabækur, íslensk ævintýri, norsk ævintýri, Grimms ævintýri og Disney bækur sem er bóka-flokkur og eru þær um Andrés Önd, Guffa, Dumbó, Andrésínu og allar hinar Disney persónurnar og fleiri persónur úr alls konar ævintýrum og sögum.“

Hefur þú heimsótt staði sérstaklega vegna þess að þeir tengjast bókum sem þú hefur lesið? „Já, Þrístapa, það eru þrír samliggjandi smáhólar sem eru hluti af Vatnsdalshólum í Austur-Húnavatnssýslu. Bókin Enginn má undan líta og fjallar um morðmál í sýslunni á þar síðustu öld. Þar fór fram síðasta aftaka á Íslandi 12. janúar 1830 en þá voru hálshöggvin Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnús-dóttir fyrir morð á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni.“

Hver er eftirminnilegasta bókin sem þú hefur fengið að gjöf? „Bókin Býr Íslendingur hér sem fjallar um Íslendinginn Leif Möller sem svikinn var í hendur Gestapó, tekinn til fanga og sendur til Sachenhausen í hinar illræmdu útrýmingarbúðir sem voru í Þýskalandi þar sem hann verður fangi númer 68138, réttindalaus þræll. Þetta er hrikalega sorgleg frásögn af grimmd, þjáningum, miskunnarleysi og mannlegri niðurlægingu í þessum útrýmingar-búðum þar sem hann barðist við að halda lífi. Myndirnar sem eru í bókinni eru svakalega átakanlegar og er þetta sennilega ekki bók fyrir alla að lesa.

Einnig get ég nefnt bókina Tengdadóttirin sem tengda-pabbi gaf mér í jólagjöf fyrstu jólin mín eftir að ég flutti í sveitina.“

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu? „Það færi alveg eftir því hverjum ég ætlaði að gefa bók-ina og af hvað tilefni. En hún yrði að höfða til viðkomandi svo það gæti verið allt frá spennusögum til ættfræðirita og allt þar á milli.“

Hvað er best með bóklestri? „Gott súkkulaði, kaffibolli og koma sér þægilega fyrir og lesa bókina í ró og næði.“ Feykir þakkar Stellu fyrir spjallið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir