Þjóðleg stemning, útivist, gleði og gaman á Vatnsdæluhátíðinni næstu helgi
Helgina 16.-18. ágúst verður haldin hátíð á slóð Vatnsdælusögu sem er nokkurs konar uppskeruhátíð þar sem fagnað verður uppbyggingu á svæðinu. Boðið verður upp á nokkrar skipulagðar gönguferðir með leiðsögn. Hápunktur helgarinnar verður á laugardaginn þegar Vatnsdalshólahlaupin fara fram og hátíðardagskrá verður í Þórdísarlundi.
Að þessu sinni verður boðið upp Gljúfurárhlaup 25 km, Ranhólahlaup 11 km og rathlaup 1-5 km auk þess verður krakkahlaup í kringum Skúlahól. Fyrir þá sem vilja læra rathlaup þá verður það kennt við Húnaskóla föstudaginn 16. ágúst kl. 17:30. Um þessar mundir er verið að sauma síðustu myndirnar í Vatnsdælurefil sem byrjað var á 2011. Þessa helgi gefst gestum tækifæri á að kíkja við í Kvennaskólanum á Blönduósi, kynna sér sögu refilsins og taka þátt í að sauma í hann. Þingeyrakirkja er opin alla helgina og forleifafræðingar sem eru við uppgröft á Þingeyraklaustri munu taka á móti gestum laugardaginn 17. ágúst kl.13.
Á hátíðardagskrá í Þórdísarlundi verður meðal annars boðið upp á rímnakveðskap, gamanmál, glímusýningu, grillað lambakjöt og Víkingar koma í heimsókn. Þá verður listasmiðja og leikir fyrir börn auk þess sem hestar verða á svæðinu og hægt að fara á bak. Á laugardagskvöld verður efnt til hagyrðingakvölds í Eyvindarstofu á Blönduósi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.