Synjun Skagabyggðar um efnistöku í sveitarfélaginu stendur
Kröfu Vegagerðarinnar um að snúa við synjun Skagabyggðar um efnistöku í sveitarfélaginu var hafnað af Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nú í byrjun apríl. Málavextir voru þeir að í október 2023 óskaði Vegagerðin eftir heimild Skagabyggðar til efnistöku á unnu efni í námu norðan Hvammkotsbruna sem nýtt yrði í sjóvarnir við Réttarholt á Skagaströnd. Heildarmagn grjóts og sprengds kjarna í verkið var áætlað allt að 1.500 rúmmetrar.
Skagabyggð hafnaði því að gefa Vegagerðinni leyfi til efnistöku en í nóvember sl. bókaði sveitarstjórn eftirfarandi: „Sveitarstjórn telur sér ekki fært að gefa leyfi til efnistöku vegna ástands vega út á Skaga, nema fyrir liggi loforð um uppbyggingu vegar og varanlega klæðningu frá enda slitlags og norður að vegamótum við þá grjótnámu sem óskað er eftir að taka úr.“
Mánuði síðar óskaði Vegagerðin heimildar til efnisvinnslu/efnistöku úr námunni Kurfur ES-10 á sömu forsendum en Skagabyggð synjaði erindinu með vísan til þess að sveitarstjórn hefði sett grjótnámurnar Kurfur-ES10 og Hvammkot-ES11 ásamt aðkomuvegi í skipulagsferli.
Hætta fyrir bæði skepnur og menn
Feykir forvitnaðist um málið hjá Erlu Jónsdóttur, oddvita Skagabyggðar, en hún sagði Skagabyggð vera mjög fámennt sveitarfélag sem nær yfir stórt landssvæði sem gæta þarf hagsmuna um, enda ríkt af auðlindum. „Stjórnsýslan er mjög veik og hefur e.t.v. ekki verið gætt þess nægilega vel að skilgreina verklagsreglur varðandi frágang og öryggismál í kringum m.a. námur.“
Erla bendir á að þegar skoðuð eru veitt framkvæmdaleyfi fyrir grjótnámi má sjá að búið er að veita framkvæmdaleyfi til töku á um 28.000 rúmmetrum af efni úr námunum Kurfur-ES10 og Hvammkot-ES11. „Samanlagt sár vegna þessarar efnistöku má áætla að jafngildi að ummáli heilum fótboltavelli á 4ra metra dýpi. Námurnar eru þannig að það eru sprengdar upp klappir til þess að ná nægilega stóru grjóti sem nýst getur m.a. til sjóvarnargerðar. Við sprengingar verður til klettastál sem er um 4m að hæð. Af slíku má sjá að það skapar verulega hættu, bæði fyrir skepnur og menn, enda svæðið algjörlega óvarið og ómerkt. Sveitarstjórn telur mikilvægt að gera reglur, sem snúa að bæði öryggismálum vegna þeirrar hættu sem efnistakan skapar á þessu svæði og eins varðandi umhverfismál, áður en frekari vinnslu er framhaldið.“
Vegagerðin hefur þegar hafið flutninga úr námunum
Næstu skref sveitarstjórnar segir Erla vera að gera verklagsreglur um efnistöku af þessari stærð þannig ekki skapist hætta af og umhverfisáhrifum verði haldið í lágmarki. „Verið er að skoða að gera sérstakt deiliskipulag fyrir það svæði sem þessi efnistaka hefur áhrif á, sem og aðkomuvegi að svæðinu. Sveitarstjórn hefur fullan hug á því að koma þessum málum í lag í samvinnu við Vegagerðina enda er hún einn helsti kaupandi að efni sem þessu,“ segir Erla.
Þrátt fyrir synjun Skagabyggðar um efnistöku í sveitarfélaginu hefur Vegagerðin nú þegar hafið flutninga á efni úr námunum. Erla segir Vegagerðina ekki vera að sprengja heldur flytji þeir úr þeim unnið efni. „Hvort það sé án leyfis eða óleyfisskylt er álitamál,“ segir hún.
Er Skagabyggð ósátt við þessa málavexti? „Það hefur ekki verið haldinn neinn fundur um þetta þannig ég get ekki talað fyrir hönd Skagabyggðar en ég get alveg fyrir mitt leyti sagt að ég hef áhyggjur af bæði Skagavegi og aðkomuveginum ef satt reynist að þetta verði um 400 ferðir,“ segir Erla að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.