Súpu og fræðslukvöld
Soroptimistaklúbburinn Við Húnaflóa stendur fyrir súpu- og fræðslukvöldi fimmtudaginn 9. mars nk. kl. 19:30 í Grunnskóla Húnaþings vestra. Fyrirlesari kvöldsins er Anna Steinsen frá KVAN, en hún ætlar að fjalla um samskipti milli kynslóða og hvað einkennir hverja kynslóð. Hvernig við getum nýtt okkur styrkleika okkar til að eiga í góðum samskiptum við aðra?
Anna er með BA gráðu í tómstunda-og félagsmálafræði og hefur sérhæft sig í þjálfun á námskeiðum fyrir ungt fólk. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna sem þjálfari á alþjóðavettvangi og starfar m.a. sem fyrirlesari, heilsumarkþjálfi, stjórnendamarkþjálfi og jógakennari. Aðgangseyrir er 2.5oo kr. Innifalið er ljúffeng súpa, brauð, kaffisopi og áhugaverður fyrirlestur.
Við tökum fagnandi á móti öllum gestum
Markmið súpukvöldanna er að bjóða upp á fræðandi fyrirlestra sem hægt er að tengja markmiðum Soroptimista. Klúbburinn Við Húnaflóa hefur árlega staðið fyrir sjálfstyrkingarnámskeiðum fyrir ungar stúlkur í Húnavatnssýslum. Súpukvöldin eru hluti af fjáröflun fyrir það verkefni. Sjáumst vonandi sem allra flest.
Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. Samtökin vinna að bættri stöðu kvenna, að mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegrar vináttu og skilning að leiðarljósi.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.