Styrkir til íþróttahreyfingarinnar vegna tekjutaps af völdum heimsfaraldurs
Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur úthlutað 450 milljónum króna til íþróttahreyfingarinnar vegna tekjutaps af völdum heimsfaraldurs. Um er að ræða lokaúthlutun stjórnvalda með það að markmiði að viðhalda öflugu íþróttastarfi hér á landi.
Körfuknattleiksdeild Tindastóls hlaut styrk upp á kr. 811.152 en knattspyrnudeild Tindastóls styrk sem nam kr. 1.918.265. Ekki komu styrkir til annarra íþróttafélaga á Norðurlandi vestra. Hæsti styrkurinn kom í hlut KSÍ eða kr. 110.117.814 en KKÍ hlaut styrk upp á kr. 36.613.517.
„Heimsfaraldur hafði hvað mestu áhrif á íþrótta- og æskulýðsstarf hér á landi. Sóttvarnaaðgerðir leiddu ýmist til kostnaðarauka eða tekjutaps við það að fella niður viðburði. Standa þarf vörð um þetta mikilvæga starf. Með stuðningnum nú lýkur mótvægisaðgerðum stjórnvalda og stendur íþróttahreyfingin sterk eftir fordæmalaust mótlæti,“ segir Ásmundur Einar.
Fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins að úthlutunin byggi á tillögum vinnuhóps Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands út frá skilyrðum mennta- og barnamálaráðuneytisins. Skilyrði stuðnings var tekjutap við það að fella tímabundið niður starfsemi og/eða kostnaðarauki vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Opnað var fyrir umsóknir í sumar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.