Steinrunninn trjábolur á Vatnsdalsfjalli - Milljóna ára gamall með yfir 200 árhringi

Greinilega sjást árhringir hins gamla trjábols sem líklega er yfir 200 talsins. Mynd: Jón Gíslason.
Greinilega sjást árhringir hins gamla trjábols sem líklega er yfir 200 talsins. Mynd: Jón Gíslason.

Það má velta fyrir sér nú, þegar umræða um hækkandi hitastig heimsins er fyrirferðamikil, hvort, og þá hvernig, verði umhorfs á Íslandi eftir einhverja mannsaldra. Ljóst er að loftslag hefur verið heittemprað á landinu fyrir milljónum ára þar sem gróðurmenjar hafa fundist hér á landi sem innihalda leifar heittempraðs skógs, lauf- og barrtrjáa.

Þetta kemur fram í grein á Wikipedia og segir þar að mest beri á beyki, kastaníu, álmi, lind, magnólíu, hjartartré, vatnafuru, risarauðviði og fornrauðviði en risarauðviðurinn er þekkt sem risafura og vex í fjalllendi Kaliforníu.

Það er einmitt spurning hvers tegundar steinrunni trjábolurinn er sem fannst ofarlega í Vatnsdalsfjalli í landi Hnausa fyrir um átta árum. Hann fannst fyrir hreina tilviljun þegar Sigurbjörn Pálmi Sigurbjörnsson á Blönduósi var í smalamennsku upp undir fjallsbrún og gekk fram á steininn en í bolnum má telja yfir 200 árhringi. Hann segir útlit og lögun hans hafa verið frábrugðin venjulegum steinum. Þetta er reyndar ekki eini steinrunni trjábolurinn á svæðinu þar sem Sigurbjörn hefur orðið var við annan. „Ég hef nú bara séð tvo hingað til þegar maður hefur hlaupið þarna framhjá í smalamennskum. Maður á alveg eftir að gefa sér almennilegan tíma til að skoða svæðið betur. Ég hef nú ekki fengið neitt sérfræðiálit varðandi steinana sem hafa fundist.

Og hvað um hann verður er ég ekki búinn að taka ákvörðun, hvort hann fái bara að vera þarna áfram í friði eða hvort maður nennir að drösla honum niður úr fjallinu til rannsóknar,“ segir Sigurbjörn.

Það var fyrir hreina tilviljun að steinninn fannst þó hann stingi í stúf í landslaginu. Mynd Sigurbjörn Pálmi Sigurbjörnsson.Pálmi Ellertsson bóndi á Bjarnastöðum og eigandi Hnausa, segist engin áform hafa um að færa steininn til byggða. „Ég hef ekki hugmynd um hvar hann er, aldrei séð hann,“ svaraði hann léttur í bragði er blaðamaður spurði hann um steininn. „Það þýðir ekkert að spyrja mig. Það er Sigurbjörn sem sá hann fyrst. Ég er ekki mikið í fjallinu svona ofarlega, læt aðra um að smala það,“ segir hann og hlær. Aðspurður hvort komið hafi til tals að sækja steininn segir hann það ekki hafa staðið til hingað til.

Steingerður viður í Axlaröxl

Feykir hafði samband við Náttúrufræðistofnun Íslands og varð Kristján Jónasson, jarðfræðingur, fyrir svörum. Hann ítrekaði þó að þetta væri kannski ekki hans sérsvið en enginn steingervingafræðingur væri starfandi við stofnunina eins og er. Hann var þó fús til að skoða mynd af steininum og draga einhverjar ályktanir.

„Ég tel nokkuð ljóst miðað við myndirnar að þetta sé steingerður trjábolur. Ég man ekki eftir að hafa séð aldursgreiningar á jarðlögum í Vatnsdalsfjalli, en miðað við stöðu þeirra í heildarsamhenginu ættu þau að vera 6-7 milljón ára eða svo.

Í steingervingasafni stofnunarinnar fann ég eitt sýni af steingerðum viði úr Vatnsdalsfjalli. Það hafði Guðráður Jóhannsson fundið 10. júlí 1991 í Axlaröxl, laust í framhlaupi NNV undan Hrafnakletti. Það líkist mjög þessum sem þú sendir myndir af og líklega kemur það úr sama jarðlaginu.“

Hann segir álíka steingerða trjáboli hafa fundist á nokkrum stöðum á Vesturlandi og fyrir austan en algengara sé að finna ummerki þeirra sem trjábolaför í hraunum þar sem tréð hefur þá brunnið burt. Hann telur að okkar steinn hafi þá líklega grafist í gjósku eða einhverju slíku og varðveist þannig.

Kristján segist gjarna vilja heyra af því ef menn vilji koma steininum niður úr fjallinu og tæki stofnunin jafnvel þátt í því.

Í steingervingasafni NÍ er sýni af steingerðum viði úr Vatnsdalsfjalli sem Guðráður Jóhannsson fann árið 1991 í Axlaröxl. Mynd: NÍ.„Ég vil benda á að samkvæmt 60. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er óheimilt að nema brott eða losa steingervinga af fundarstað. Ráðherra getur þó að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt undanþágu frá ákvæði þessu í þágu jarðfræðirannsókna og til töku sýna fyrir gestastofur og söfn.“

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að för eftir trjáboli, svonefndar trjáholur, séu allvíða þekktar í tertíera basaltstaflanum, en hafa ekki verið kortlagðar kerfisbundið. „Þegar hraun rann frá eldstöð yfir skógi vaxið land féllu trén um koll en stundum stóðu þau keik eftir. Hraunkvikan umlukti trjábolinn sem brann oftast upp til agna og skildi eftir sig trjáholu.“

Plöntuleifarnar varðveitast á ólíkan hátt, segir á ni.is en í sumum tilvikum sést einungis svolítið far eftir plöntuhluta, eins og oft er tilfellið með laufblöð. „Í öðrum tilfellum varðveitast plöntuvefirnir nánast sem í lifandi plöntu væru og eru trjábolir í surtarbrandslögum gott dæmi um slíka varðveislu. Þá er einnig algengt að plöntuhluti hafi kolast og sést hann þá sem örþunn, dökk skán í setlögum. Stundum setjast steinefni til í frumum plöntuvefjarins, til dæmis kísill, og er þá sagt að lífveran (til dæmis tréð) hafi steinrunnið.“

Plöntusteingervingar í hraunlögum

Í áðurnefndri grein á Wikipedia kemur fram að í hraunlögum hafi fundist menjar um gróður frá efri hluta nýlífsaldar og eru holur og för eftir greinar og trjáboli algengastar, t.d. í Kotagili í Skagafirði en einnig á Barðaströnd og Jökulfjörðum. Afsteypur af trjábolum hafa einnig fundist í Strandasýslu, Barðaströnd, Skagafjarðardölum og í Hornafirði.

„Íslenskar gróðurmenjar eldri en 10 milljón ára gamlar bera vott um skyldleika við tegundir sem uxu í laufskógabelti Norður-Ameríku og bera vitni um mildara loftslag en nú er ríkjandi á landinu. Það er því líklegt að á þessum tíma eða fyrr hafi verið landbrú á milli frum-Íslands og Norður-Ameríku. Meðalhiti hefur verið um 8-12°C þegar þær plöntur sem nú finnast steingerðar í Botni, Selárdal, við Brjánslæk og Seljá uxu hér,“ segir í greininni en til gamans má geta þess að meðalhiti seinni helmings síðustu aldar var rétt um þrjár gráður skv. samantekt Veðurstofu íslands. Ennfremur segir í greininni að gróðurmenjarnar í Þórishlíðarfjalli í Selárdal séu um 15 milljón ára gamlar og innihalda leifar heittempraðs skógs lauf- og barrtrjáa. Mest ber á beyki, kastaníu, álmi, lind, magnólíu, hjartartré, vatnafuru, risarauðviði og fornrauðviði.

Temprað loftslag

Til frekari fróðleiks um veðurfar á Íslandi skal halda áfram að vitna í Wikipedia: „Jurtaleifar í Dufansdal í Fossafirði (í botni Arnarfjarðar) innihalda 13,5 milljón ára gamlar leifar skógs sem óx í tempruðu loftslagi. Mest ber á beyki, birki, agnbeyki og álmi en dulfrævingar eru meira áberandi en berfrævingar. Leifarnar í Surtarbrandsgili hjá Brjánslæk og við Seljá í Vaðalsdal eru taldar um 12 milljón ára gamlar. Mest áberandi eru þinur, greni, risafura, lárviður, magnólía, hlynur, elri, birki, víðir, túlípantré, álmur og hesliviður. Á þessum tíma voru lauftré farin að víkja fyrir barrtrjám og beyki var ekki lengur aðaltré. Plöntuleifar úr setlögum við Tröllatungu og í Húsavíkurkleif í Steingrímsfirði og í Hólmatindi við Reyðarfjörð eru 10-9 milljón ára gamlar. Burknar, víðir, hlynur, magnolía, birki, valhnota og hikkoría virðast hafa verið ríkjandi í láglendisgróðri á þessum tíma. Í Hrútagili í Mókollsdal í Strandasýslu eru 9-8 milljón ára gamlar jurtaleifar þar sem beyki virðist aftur hafa verið algengt en einnig finnst hlynur, birki, elrir, álmur, vænghnota og hesliviður.

Kaldtemprað loftslag

Leifar í nágrenni Hreðavatns eru taldar 7-6 milljóna ára gamlar en þar eru birki, víðir og barrtré orðin ríkjandi fremur en kulvísari tegundir. Loftslag fór kólnandi á efri hluta míósen eins og leifarnar við Hreðavatn bera með sér. Leifar við Sleggjulæk í Borgarfirði benda til frekari kólnunar en þær er líklega um 3,5 milljón ára gamlar. Birki, víðir og grös urðu sífellt meira áberandi á sama tíma og skógurinn fór minnkandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir