Stefnir í fjölgun verkefna hjá Sýslumanninum á Blönduósi

MYND AF VEF STJÓRNARRÁÐSINS
MYND AF VEF STJÓRNARRÁÐSINS

Lagafrumvarp um flutning verkefna Innheimtustofnunar sveitarfélaga, m.a. tengt innheimtu meðlaga, til sýslumannsins á Norðurlandi vestra, vegna samlegðar við verkefni innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi sem er á ábyrgð embættisins, hefur verið lagt fyrir Alþingi. Þar er miðað við að verkefni Innheimtustofnunar færist yfir til sýslumanns 1. janúar 2024.

Á vef Stjórnarráðsins segir frá því að dómsmálaráðuneytið hafi undanfarið átt samstarf við önnur ráðuneyti um að efla þjónustu sýslumannsembættanna á landsbyggðinni með auknum verkefnum. Í forgangi undanfarið hefur verið samstarf ráðuneytisins við innviðaráðuneytið um flutning áðurnefndra verkefna Innheimtustofnunar sveitarfélaga.

„Væntingar eru um að verkefnaflutningurinn skili í fyrsta lagi bættri þjónustu við meðlagsgreiðendur enda er betra aðgengi að sýslumanni vegna fjölda starfsstöðva embættanna um land allt. Eftir flutning verkefnisins til sýslumanns eiga meðlagsgreiðendur þess kost að geta kært vissar ákvarðanir embættisins til dómsmálaráðuneytisins. Ráðuneytið mun jafnframt hafa skýrt eftirlitshlutverk með málaflokknum og þeim stjórnvaldsákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laganna. Verkefnaflutningurinn mun í öðru lagi fjölga sérhæfðum störfum á landsbyggðinni, enda er markmið aðgerðarinnar meðal annars að styrkja starfsstöðvar sýslumanns á landsbyggðinni með fjölgun stöðugilda. Í þriðja lagi þykir ljóst að ýmsir hagræðingarmöguleikar fylgja breytingunum vegna samlegðar við annan rekstur innheimtumiðstöðvarinnar svo sem yfirstjórn og upplýsingatækni. Þá eru jafnframt tækifæri fólgin í endurskoðun verkferla með tilliti til aukinnar nýtingar tækninnar við framkvæmd innheimtu meðlaga,“ segir m.a. í fréttinni á vef Stjórnarráðsins.

Nánar má lesa um málið hér >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir