Stækkun Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í farvegi
„Auka þarf verulega námsaðstöðu til starfsnáms í framhaldsskólum og móta aðgerðaáætlun til draga úr húsnæðisnotkun í bóknámi út frá spá um þróun á fjölda nemenda í framhaldsskólum til ársins 2033,“ segir á heimasíðu Stjórnarráðsins en það var niðurstaða greinargerðar um húsnæðisþörf í framhaldsskólum næstu tíu árin sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti í morgun.
Mennta- og barnamálaráðuneytið vinnur nú að áætlun um hvernig brugðist verði við þessum breytingum á næstu árum en samkvæmt því sem fram kemur í frétt ráðuneytisins má gera ráð fyrir því að nemendum í starfsnámi fjölgi um 1.500–1.800 ársnemendur eða 18% á næstu fimm til sex árum. Á sama tíma fækkar nemendum í bóknámi um 510 eða 3%. Frá 2028–2033 má búast við að fjöldi nemenda í starfsnámi nái jöfnuði en að það fækki um ríflega 2.000 nemendur eða tæp 13% í bóknámi.
Spáin byggir í grunninn á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands og Byggðastofnunar vegna einstakra landshluta. Í henni eru sett fram tölusett markmið um skólasókn í framhaldsskólum eftir aldri nemenda á grundvelli menntastefnu 2020–2030 og markmiða ríkisstjórnarinnar um aukið vægi starfsnáms á komandi árum.
Frá pallborðsumræðum á morgunverðarfundi mennta-
og barnamálaráðherra. Mynd: Stjornarradid.is.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra segir æ fleiri sækja í verknám sem sé fagnaðarefni enda þörfin mikil. „Nú höfum við kortlagt þróunina sem sýnir að aðsóknin muni halda áfram að aukast næsta áratuginn. Stækkun ýmissa skóla er í farvegi en á sama tíma þurfum við að vinna áætlun um hvernig við mætum fækkunum í bóknámi,“ segir Ásmundur Einar.
Ljóst er að bregðast þarf við þessari þróun, segir í frétt ráðuneytisins og bent á að skortur á viðeigandi húsnæði auk skorts á fagmenntuðum kennurum sé ein meginástæða þess að starfsmenntaskólarnir hafa hafnað umsóknum nemenda í starfsnám á undanförnum árum.
„Auka þarf húsnæði um 16.000–19.500 fermetra til að mæta fjölgun starfsnámsnemenda á næstu árum. Mest verður þessi þörf á höfuðborgarsvæðinu, eða á bilinu 10.000–13.000 fm, á Suðurnesjum og Norðurlandi eystra. Jafnframt er ljóst að draga þarf úr húsnæði til bóknáms vegna fyrirsjáanlegrar fækkunar nemenda til að losa bundið fé í vannýttu húsnæði.“
Þá er bent á að ráðast þurfi í umfangsmiklar framkvæmdir til viðbótar víðsvegar um landið til að mæta þörfinni sem ekki verði gert á einu bretti. Því geri greinargerðin áætlun til lengri tíma og þótti hæfilegt að horfa til næstu tíu ára.
Í greinargerðinni kemur fram að alls séu níu mál skráð í málaskrá mennta- og barnamálaráðuneytisins varðandi óskir um stækkun framhaldsskóla og eru þau verkefni komin mislangt í undirbúningi.
Þau verkefni sem komin eru í farveg eru:
- Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, stækkun um 2.400 fm.
- Menntaskólinn í Reykjavík, stækkun og endurbygging 2.620 fm.
- Menntaskólinn á Ísafirði, stækkun um 650 fm.
- Fjölbrautaskóli Norðurlands Vestra, stækkun um 1.200 fm.
- Fjölbrautaskóli Suðurnesja, stækkun um 1.320 fm.
- Verkmenntaskólinn á Akureyri, stækkun um 1.320 fm.
- Verkmenntaskólinn á Austurlandi, stækkun um 660 fm.
- Borgarholtsskóli, stækkun um 1.600 fm.
- Fjölbrautaskólinn á Suðurlandi, 900 fm. auk 800 fm. heimavistar.
- Tækniskólinn, bygging nýs skóla ca 30.000 fm – stækkun um 6.000 fm
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra,
og Ingileif oddsdóttir, skólameistari FNV, rituðu nöfn sín
undir viljayfirlýsingu um stækkun verknámshúss skólans á
vormánuðum 2022. Mynd: PF
Við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra hafa skólayfirvöld óskað eftir 1.200 fm. stækkun en ekki er talið líklegt að nemendum í dagskóla muni fjölga til muna á næstu árum vegna neikvæðrar íbúaþróunar. Hins vegar hefur nemendum fjölgað mjög mikið undanfarin ár og mjög þröngt um nemendur í starfsnáminu. Stækkun þar er því fyrst og fremst til að mæta þeirri fjölgun sem þegar hefur verið.
Í nóvember var greint frá aðgerðum stjórnvalda sem lúta að því að fjölga nemum í starfsnámi með níu aðgerðum sem byggja á tillögum starfshóps um innritun í starfsnám á haustönn 2022 sem Ásmundur Einar skipaði í sumar með fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðar, skólameisturum starfsmenntaskólanna og Menntamálastofnun, auk ráðuneytisins.
Aðgerðirnar lúta að því að auka getu starfsmenntaskólanna til að taka við nemum, liðka fyrir inngöngu eldri umsækjenda, auka náms- og starfsráðgjöf fyrir grunnskólanema, fjölga fagmenntuðum kennurum, stytta nám í uppeldis- og kennslufræði með mati á starfsreynslu, gefa Menntamálastofnun yfirsýn yfir dreifingu umsókna milli skóla til að umsækjendur sem fá höfnun í einum skóla komist að í öðrum og auka samvinnu og samræmingu skóla um framkvæmd og fjármögnun kennslunnar.
Tenglar á:
Greinargerð um húsnæðisþörf í framhaldsskólum 2023-2033
Streymi af morgunverðarfundi mennta- og barnamálaráðherra um meira og betra verknám
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.