Sóldís með Júrótónleika í Blönduóskirkju í kvöld
Kvennakórinn Sóldís bregður undir sig betri fætinum í dag og heldur á Blönduós en þar mun kórinn, sem er að mestu skipaður skagfirskum söngfuglum með nokkrum húnvetnskum undantekningum, halda tónleika í Blönduóskirkju og hefjast þeir kl. 20. Um er að ræða stórskemmtilega dagskrá sem þær kalla Eitt lag enn – Eurovision glimmer og gleði, og er eðli málsins samkvæmt stútfull af Eurovision-lögum.
Dagskráin var fyrst flutt í Miðgarði á konudaginn og fékk hreint frábærar undirtektir en haft var eftir áheyrendum að þeir hefðu vart skemmt sér betur á tónleikum. Kvennakórsdömur skelltu einnig í tónleika á Akureyri og á Skagaströnd í mars.
Söngstjóri Sóldísar er Helga Rós Indriðadóttir en hljómsveit skipa Rögnvaldur Valbergsson, Steinn Leó Sveinsson og Sigurður Björnsson. Kristín Halla Bergsdóttir spilar á fiðlu og Anna Karítas Ingvarsdóttir á þverflautu. Einsöngvarar eru Elín Jónsdóttir, systurnar Gunnhildur og Kristvina Gísladætur og Ólöf Ólafsdóttir.
Kórinn endurtekur síðan leikinn í upphafi Sæluviku næstkomandi laugardagskvöld, mætir þá til leiks í Höfðaborg á Hofsósi kl. 20.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.