Snéru heim með fullt farteski af fróðleik, hugmyndum og innblæstri

Sendiráð Íslands í Noregi bauð hópnum í heimsókn á auglýsingastofu PIPAR/TBWA í Osló þar sem ýmsir íslenskir aðilar komu saman og deildu reynslu sinni af því að koma á markað í Noregi og ræða nýsköpun.   MYNDIR FRÁ STARFSFÓLKI BYGGÐASTOFNUNAR
Sendiráð Íslands í Noregi bauð hópnum í heimsókn á auglýsingastofu PIPAR/TBWA í Osló þar sem ýmsir íslenskir aðilar komu saman og deildu reynslu sinni af því að koma á markað í Noregi og ræða nýsköpun. MYNDIR FRÁ STARFSFÓLKI BYGGÐASTOFNUNAR

Nú aðra vikuna í maí hélt fríður flokkur af landi brott í fimm daga reisu til Noregs. Það voru allt í allt 35 starfsmenn Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna sem brugðu undir sig betri fætinum í þeim tilgangi að fræðast um stefnur og strauma, áherslur og verkefni annarra innan byggða-, atvinnu-, nýsköpunar- og atvinnumála. Þessir aðilar, þ.e. Byggðastofnun og landshlutasamtökin, fara reglulega í sameiginlegar náms- og kynnisferðir til nágrannalandanna. Feykir hafði samband við Ragnhildi Friðriksdóttur, sérfræðing á þróunarsviði Byggðastofnunar, sem hafði veg og vanda að því að skipuleggja ferðina ásamt samstarfsfólki sínu, og spurði aðeins út í ferðalagið.

Ragnhildur segir að venjulega séu náms- og kynnisferðir sem þessar farnar á tveggja ára fresti en vegna COVID-19 hefur engin slík ferð verið farin síðan 2018. „Það er mikils virði fyrir okkur að fara í slíkar ferðir til að tappa af reynslu nágrannaþjóðanna innan þessara málaflokka, miðla okkar eigin reynslu og mynda tengslanet. Það ríkir gott samstarf milli Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna sjö á landsbyggðinni og ferðir sem þessar eru einmitt liður í að styrkja það tengslanet, efla samstarfið og kveikja undir nýjum samstarfsverkefnum. Í ár var mjög mikill áhugi á ferðinni og stór hópur sem fór, alls 35 manns. Auk Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna voru líka fulltrúar frá Byggðamálaráði í ferðinni,“ segir hún. Þess má geta að átta manns fóru í ferðina fyrir hönd Byggðastofnunar en þrír frá SSNV sem eru landshluta-samtökin á Norðurlandi vestra.

„Hvað mitt hlutverk varðar, þá sé ég um samstarfssamninga Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna og virka sem nokkurs konar tengiliður milli Byggðastofnunar og samtakanna. Byggðastofnun gerir samninga við landshlutasamtökin sjö á landsbyggðinni um atvinnu- og byggðaþróun. Samstarfssamningurinn felur í sér fjölbreytt verkefni og er mikilvægur hlekkur í starfsemi Byggðastofnunar og ekki síður í eflingu byggða landsins.“ Ragnhildur segir að innan ramma samningsins bjóði atvinnuráðgjafar landshlutasamtakanna m.a. upp á atvinnuráðgjöf til frumkvöðla, hópa og fyrirtækja á þeirra svæði. Einnig aðstoða þeir íbúa við áætlanagerð, markaðssókn og fjármögnun, og veita fræðslu, þar á meðal um lánamöguleika Byggðastofnunar. „Landshlutasamtökin vinna að fjölda atvinnu- og byggðaþróunar-verkefna innan sinna svæða, styrkja tengslanet og stoðkerfi atvinnulífs og nýsköpunar. Þau standa einnig fyrir ýmiss konar viðburðum, fræðslu og þjálfun fyrir frumkvöðla, fyrirtæki, framleiðendur og aðra íbúa innan svæðisins, ýmist sjálfstætt eða í samstarfi við önnur landshlutasamtök og Byggðastofnun. Allt eru þetta þættir sem unnir eru innan ramma samningsins og því er um að ræða mikilvægt tól til eflingar atvinnulífs og byggðaþróunar innan hvers landshluta.“

Ragnhildur segir að í ljósi þessa hlutverks hennar sem tengiliðs milli Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna hafi það komið í hennar hlut að skipuleggja þessa Noregsferð og halda utan um verkefnið. „Sem ég gerði með dyggri aðstoð Helgu Harðardóttur og Hönnu Dóru Björnsdóttur, samstarfskvenna minna hérna á Byggðastofnun, sem og fulltrúum landshlutasam-takanna.“

Hvernig gekk ferðin fyrir sig, hverja sóttuð þið til dæmis heim? „Við lögðum af stað til Noregs að morgni mánudagsins 8. maí og lentum í Osló. Fyrsta heimsóknin þar var til Nordic Innovation, eða Norræna nýsköpunarsjóðsins, sem starfar undir Norrænu ráðherranefndinni. Nordic innovation leggur höfuðáherslu á norrænt samstarf og hefur að markmiði að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærni, nýsköpun og sam-keppnishæfni nýsköpunar-fyrirtækja. Þar tók á móti okkur hann Þórður Reynisson sem er ráðgjafi þar á bæ og fór hann yfir fjölmörg verkefni sjóðsins og möguleika okkar til aukinnar þátttöku, ásamt samstarfsfólki sínu.“

Daginn eftir skellti hópurinn sér til Þrándheims þar sem hann dvaldi í tvo sólarhringa. „Einn úr ferðahópnum þekkti aðeins til þar á bæ og setti mig í samband við fyrrum samstarfsfélaga sína sem starfa hjá fylkisskrifstofu Þrændalaga. Þau tóku okkur algjörlega upp á sína arma og skipulögðu flotta dagskrá fyrir okkur í Þrándheimi. Við fórum m.a. í heimsókn á rannsóknarstofu NTNU, Tækniháskólans í Þrándheimi, þar sem við hittum einnig fyrir fulltrúa Innovation Norge, sem og fulltrúa frá tveimur klösum á svæðinu og fræddumst þar um klasa og nálgun Norðmanna þegar kemur að klasasamstarfi og nýsköpun. Norðmenn eru mjög framarlega þegar kemur að stuðningi við nýsköpun og árangursríkt klasasamstarf og því sköpuðust góðar umræður þar og ljóst að við getum lært mikið af frændum okkar þegar kemur að þessum málaflokki.

Daginn eftir höfðu fulltrúar fylkisskrifstofunnar sett upp litla ráðstefnu fyrir okkur á nýju og glæsilegu ráð-stefnuhóteli við höfnina í Þrándheimi. Þar komu aðilar vítt og breitt úr stjórnsýslu fylkisins, atvinnulífinu og menntamálageiranum og fluttu erindi og svöruðu spurning-um okkar um hin ýmsu mál, s.s. sveitastjórnarmál, nýsköp-un, mennta- og umhverfismál, svæðisbundna verðmæta-sköpun og ýmislegt fleira. Auk þess fengum við líka tækifæri til að kynna okkur, okkar starfsemi og verkefni. Eftir þennan dag vorum við flest komin með troðfulla glósubók og uppfull af hugmyndum um ný verkefni og nálganir á hinum ýmsu áskorunum, en ljóst er að Norðmenn glíma að miklu leyti við áþekkar áskoranir innan byggðamála og við hér á Íslandi. Ber þar að nefna innan heilbrigðisþjónustu, getu minni sveitarfélaga til að sinna lögbundnum hlutverkum sínum, vexti í fiskeldi, skorti á fólki innan lykilatvinnugreina með rétta færni og menntun, þá ekki síst innan orkumála. Eins heyrðum við um mikið af þeim hrókeringum sem hafa átt sér stað í skipulagi sveitarfélaga undanfarin ár í Noregi, svo sem sameiningar sveitarfélaga á stærri svæðum fyrir ekki svo löngu sem að einhverju leyti hafa gengið til baka nú síðustu misseri, en það var mjög áhugavert að heyra hvernig þessu hefur verið háttað og hvaða lærdóm Norðmenn hafa dregið af þessu ferli. Mikið var einnig rætt um vöxt í fiskeldi, áhrif þess á byggðaþróun í landinu og gífurlega umfram eftirspurn eftir orku, líkt og við þekkjum svo vel hér á landi.“

Tappa› af reynslu nágrannafljó›a okkar í bygg›amálum

 

Ragnhildur segir að í Þrænda-lögum hafi stjórnvöld sett fram skýra stefnu er snúi að matarauði svæðisins og byggt upp mikla matarmenningu sem byggir á afurðum úr héraði, gæða hráefni og matreiðslu. Hún segir að hópurinn hafi sannarlega ekki farið varhluta af því og var hver máltíðin annarri betri, allt úr staðbundnu hráefni.

Lokahnykkur ferðarinnar var svo í Osló á fimmtudegin-um. „Eftir að hafa byrjað daginn í Ruralis í Þrándheimi, sem er rannsóknastofnun um byggðaþróun, hélt hópurinn aftur til Oslóar þar sem við-burður var haldinn á vegum íslenska sendiráðsins í Osló. Þema kvöldsins var reynsla Íslendinga af að koma inn á markað, starfa og reka fyrirtæki í Noregi, en Noregur er gjarnan fyrsti viðkomustaður Íslendinga sem hyggja á útflutning eða útrás. Högni Kristjánsson, sendiherra, bauð hópinn velkominn, auk þess sem þau Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar/TBWA í Noregi, Örn Thompsen, framkvæmdastjóri Arctic Trucks, Steinunn Þórðardóttir, formaður norsk-íslenska við-skiptaráðsins og Sigríður Þormóðsdóttir hjá Standard Norge, ávörpuðu samkomuna og miðluðu sínum ráðum og fróðleik til hópsins.“

Hverju skilar svona ferð þátt-takendum? „Ferðalangarnir 35 voru sammála um að þessi ferð hafi verið vel heppnuð og að fólk hafi farið heim með fullt farteski af fróðleik, hugmyndum og innblæstri um framtíðarverkefni, bæði á landsvísu sem og sínu nærumhverfi. Ferðir sem þessar eru mjög gagnlegar fyrir þennan hóp þar sem við fáum dýrmætt tækifæri til að sækja okkur fróðleik og tappa af reynslu nágrannaþjóða okkar í byggðamálum. Ferðirnar eru ekki síður mikilvægar til þess að hópurinn, sem vinnur mikið saman allan ársins hring, kynnist betur innbyrðis, ræði samstarfið og verkefnin fram undan. Það var einstaklega góður andi í hópnum og fólk er strax farið að vinna úr þeim upplýsingum sem fengust í þessari ferð,“ segir Ragnhildur að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir