Slökkvilið Skagastrandar og Brunavarnir Skagafjarðar gera með sér samning um gagnkvæma aðstoð

Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Skagafjarðar og Jón Ólafur Sigurjónsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Skagastrandar. Mynd: skagastrond.is
Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Skagafjarðar og Jón Ólafur Sigurjónsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Skagastrandar. Mynd: skagastrond.is

Nú á dögunum gerðu Slökkvilið Skagastrandar og Brunavarnir Skagafjarðar með sér samning um gagnkvæma aðstoð.

Samningur þessu er áþekkur þeim sem eru í gildi um allt land og kveður á um gagnkvæma aðstoð slökkviliða þar sem þjónustusvæði liðanna liggja saman.

Feykir hafði samband við Svavar Atla Birgisson, slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Skagafjarðar og forvitnaðist um samninginn.

„Þetta snýst í rauninni um það að ef þá vantar hjálp, þá getum við veitt hana, og ef okkur vantar hjálp, þá geta þeir veitt hana.“

Svavar segir jafnframt að hingað til hefur þetta samkomulag verið munnlegt en nú er það orðið formlegt skriflega.

Þurfið þið þá ekki að kynna ykkur aðstæður þarna hinum megin og öfugt?

„Jú, það er hluti af samningnum. Samningsaðilar eru hvattir til að kynna sér starfsemi og búnað hvors annars, með heimsóknum og öðru slíku. Þetta snýst í rauninni um stærri verkefni þar sem vantar hendur og búnað. Í tímaþröngum verkefnum og stórum vettvöngum t.d., það er í rauninni hugmyndin á bak við þetta.“

Brunavarnir Skagafjarðar eru nú þegar með samskonar samninga við Fjallabyggð, Brunavarnir Húnaþings vestra og í bígerð eru samningar við Slökkvilið Akureyrar.

 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir