Skúlahóll í Vatnsdal er magnaður útsýnisstaður

Útsýnið af Skúlahóli í Vatnsdal. MYNDIR: RÓBERT DANÍEL JÓNSSON
Útsýnið af Skúlahóli í Vatnsdal. MYNDIR: RÓBERT DANÍEL JÓNSSON

Himnastigi Húnabyggðar hefur verið reistur en um er að ræða ansi hreint magnaðan útsýnisstað á Skúlahóli í Vatnsdal. Af hólnum er gott úsýni yfir Flóðið, Jörundarfell og Vatnsdalshólana svo eitthvað sé nefnt en Skúlahóll má segja að sé suðaustastur Vatnsdalshóla á bakka Flóðsins og eini hóllinn sem er austan vegar.

Feykir hafði samband við Pétur Arason, sveitarstjóra Húnabyggðar, og spurði út í verkefnið. Hann segir hugmyndina hafa komið frá heimamönnum. „Dóra í Vatnsdalshólum, sem er landeigandi, studdi og þróaði þessa hugmynd með okkur. Tildrög verkefnisins eru t.d. þau að ferðamenn stöðva gjarnan bifreiðar sýnar á veginum við hólinn og ganga upp á hann til að njóta útsýnisins. Þetta getur skapað hættu þar sem við hólinn er tiltölulega kröpp beygja og ekkert pláss á veginum til að leggja bifreiðum. Við vorum líka sammála um að ekki væri gott að fólk væri að ganga upp á hólinn á mörgum stöðum þar sem jarðvegurinn í honum er laus og gróður viðkvæmur. Það var því ákveðið að setja einfaldan stiga eða tröppur upp á hólinn til að bæta aðgengi og verja náttúruna.“

Pétur segir að í Húnabyggð hafi á síðustu árum farið fram umtalsverð uppbygging ferðamannastaða þar sem Þrístapar og Hrútey eru stærstu verkefnin. Þau verkefni eru bæði langt komin og ferðmenn þegar farnir að streyma þangað í mun meira mæli en áður.

„Þessi uppbygging mun halda áfram og ætlunin er að bæta í frekar en hitt og er verkefnið í gamla bænum á Blönduósi dæmi um það. Húnabyggð hefur fengið styrk frá framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir verkefninu Vatnsdæla þar sem áhersla er lögð á að gera Vatnsdælasögu betri skil en nú þegar er gert og er það verkefni í gangi. Samhliða því verkefni var ákveðið að vinna sérstaklega með Vatnsdalinn, þ.e. þau náttúruundur sem þar eru, jarðfræðina, þjóðsögurnar o.fl. Hugmyndin er að tengja betur saman svæðið í heild sinni og leyfa fólki að njóta alls þess sem Vatnsdalurinn og nærliggjandi svæði hafa upp á að bjóða.“

Hversu mörg þrep eru til himna í Húnabyggð?

Pétur segir að nýlega hafi Elfa Þöll Grétarsdóttir verið ráðin sem verkefnastjóri ferðmála í Húnabyggð og eftir að hún kom hafihjólin snúist mun hraðar en venjulega. Eitt af þeim hliðarverkefnum sem hún setti af stað var að setja upp himnastigann á Skúlahól sem nú er semsagt orðinn að veruleika. „Elfa fékk Sigfús Sigurðsson smið með sér í lið og þetta var klárað á einni viku og núna eru íbúar að skoða þetta og prófa og mynda sér skoðun á þessu. Á Facebook má sjá að stiginn hefur fengið nafnið Himnastiginn og tíminn mun leiða í ljós hvort að það festist en undirtektirnar virðast vera góðar.“ Pétur nefnir að lögð hafi verið áhersla á að hafa þetta einfalt og að raskið yrði sem minnst. „Helst ekki neitt, því fara verður varlega á stöðum sem þessum.“

Hvar er hóllinn og hvernig er aðgengi að honum? „Skúlahóll er steinsnar frá þjóðveginum og rétt innan við bæinn Vatnsdalshólar. Við erum að vinna að því að auðvelt sé að beygja út af veginum til að leggja bílum þannig að hætta skapist ekki af þegar fólk skoðar Skúlahól. Útsýnið er fagurt af hólnum, yfir Flóðið, á Hnjúkinn, aðeins inn í Vatnsdal, yfir alla Vatnsdalshólana og út yfir Þingið.“

Það er oft sagt að Vatnsdalshólar séu óteljandi. Er búið að telja þá? „Elfa er að vinna að því núna að telja Vatnsdalshólana,“ segir Pétur léttur og bætir við: „En hún skorar á móti á ferðamenn og aðra sem heimsækja Skúlahól að giska á hversu margar tröppur eru í stiganum áður en gengið er upp. Himnastiginn er hluti af fjölskyldufimmunni sem er skemmtilegur fjölskylduleikur sem fer í loftið á Húnavökunni sem byrjarí dag,“ segir Pétur að lokum.

Þá má nefna það að kannski kemur sumum spánskt fyrir sjónir nafnið Flóðið á þessu fallega stöðuvatni sem Skúlahóll skagar út í. Ástæðan fyrir nafninu er sú að fyrir rétt rúmum 300 árum féll mannskæð skriða, Bjarnastaðaskriða, og stíflaði árfarveg Vatnsdalsár og myndaði þar með stöðuvatnið Flóðið. Ekki gat Feykir komist að því hvaða Skúli það var sem fékk hólinn nefndan í höfuðuð á sér.

- - - - - -
Myndirnar sem hér fylgja tók Róbert Daníel Jónsson af alkunnri snilld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir