Skagfirski kammerkórinn syngur Magnificat á Selfossi

Laugardaginn 8.apríl kl.16 verða stórtónleikar á Selfossi þar sem Skagfirski kammerkórinn kemur mikið við sögu. Það er Sinfóníuhljómsveit Suðurlands sem stendur fyrir þessum tónleikum. Á tónleikunum mun Skagfirski kammerkórinn ásamt Kammerkór Norðurlands og kirkjukór Selfosskirkju flytja hið glæsilega verk Magnificat eftir breska tónskáldið John Rutter. Verkið er samið fyrir hljómsveit, kór og einsöngvara og mun Helga Rós Indriðadóttir kórstjóri Skagfirska kammerkórsins syngja einsöngshlutverkið. Guðmundur Óli Gunnarsson stofnandi og stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands og Kammerkórs Norðurlands mun svo halda um tónsprotann á tónleikunum.

Efnisskrá tónleikanna verður tvískipt, fyrir hlé verða fluttar íslenskar einsöngsperlur í nýjum hljómsveitarútsetningum. Um er að ræða nýja nálgun á þekktum íslenskum einsöngslögum sem annars eru venjulega flutt með hefðbundnum píanóundirleik. Það verða þau Helga Rós Indriðadóttir sópran og Gunnlaugur Bjarnason baríton sem flytja einsöngslögin.

Eftir hlé verður svo hið glæsilega kórverk Magnificat flutt. Reikna má með að samanlagður fjöldi kórsöngvara verði milli 60-70 og 24 hljóðfæraleikarar munu skipa hljómsveitina svo um er að ræða stóra uppfærslu.

Verkið Magnificat er samið í kringum 1990 og er lofsöngur til Maríu meyjar, það var frumflutt það ár og sló strax í gegn þó sumum þætti það of galsafengið sem lofsöngur Maríu. Innblástur að verkinu sækir Rutter í stemninguna, gleðina og fögnuðinn sem fylgir Maríuhátíðum í suðrænum löndum enda finnst Rutter íbúum á norðurhjara heimsins ekki veita af dálitlum sólskinsstraumum úr suðri. Það er því ekki laust við að verkið beri með sér nokkuð suðrænan blæ og sveiflu sem gerir það mjög áheyrilegt og líflegt.

Magnificat eftir John Rutter er Skagfirska kammerkórnum ekki ókunnugt en í tilefni fullveldisársins 2018 stóð kórinn fyrir samskonar tónleikum sem fluttir voru þrisvar sinnum það ár, seinni partinn í október, fyrst í menningarhúsinu Miðgarði fyrir fullu húsi, síðan syðra í Bíóhöllinni Akranesi og loks í Langholtskirkju. Stjórnandi þá sem nú var Guðmundur Óli Gunnarsson.

Kórfélagar úr Skagfirska kammerkórnum munu halda af stað suður yfir heiðar á skírdag og mikil tilhlökkun ríkir í hópnum að flytja verkið aftur, æft verður með öllum kórunum og hljómsveit á skírdag, föstudaginn langa og tónleikadaginn og svo verða tónleikarnir sem fyrr segir í Selfosskirkju kl.16 á laugardeginum. Hægt er að nálgast miða á Tix.is
/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir