Sjö einstaklingar fá úthlutað úr Húnasjóði
Á heimasíðu Húnaþings vestra segir að á 1220. fundi byggðarráðs sem fram fór 6. ágúst sl. voru styrkveitingar úr Húnasjóði árið 2024 ákvarðaðar. Alls bárust 7 umsóknir sem allar uppfylltu skilyrði til úthlutunar. Til ráðstöfunar í ár voru kr. 600 þúsund sem skiptast á milli umsækjenda svo í hlut hvers koma kr. 85 þúsund.
Eftirtaldin hljóta styrk að þessu sinni:
Húnasjóð stofnuðu hjónin Ásgeir Magnússon og Unnur Ásmundsdóttir til þess að minnast starfs Alþýðuskóla Húnvetninga, sem Ásgeir stofnaði og rak á Hvammstanga árin 1913-1920. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að endurmenntun og fagmenntun í Húnaþingi vestra. Samkvæmt skipulagsskrá fyrir Húnasjóð sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar þann 12. október 2000 skal sveitarsjóður leggja sjóðnum árlega til fé skv. fjárhagsáætlun hverju sinni. Árlegu framlagi Húnaþings vestra ásamt hálfum vöxtum höfuðstóls skal úthlutað í styrki á ári hverju.
Húnaþing vestra auglýsir á hverju ári eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum sem er veittur síðsumars ár hvert.
Frá árinu 2001 hefur alls verið úthlutað ríflega 15 milljónum króna í styrki. Umsóknir í sjóðinn hafa á þeim tíma verið 235. Af þeim hafa 160 hlotið styrk, þar af 109 konur og 51 karl.
Styrkþegar hafa lokið fjölbreyttu námi, svo sem í dýralækningum, rekstrarfræði, hvers kyns listum, kennarafræði, læknisfræði, félagsráðgjöf, tölvunarfræði, ferðamálafræði, reiðmennsku, skrifstofutækni, líffræði, viðskiptafræði, búvísindum, stjórnmálafræði, sjúkraþjálfun, sjúkraliðanámi, umhverfisskipulagsfræði, bókasafns- og upplýsingafræði, samgönguverkfræði, véltæknifræði, hjúkrunarfræði, lögfræði, þroskaþjálfun, rafmagnstæknifræði, margmiðlunarframleiðslu, sálfræði, íþróttafræði, leiðsögunámi, fornleifafræði, hestafræði, sagnfræði, byggingariðnfræði, kvikmyndagerð, hagfræði, landfræði, leiklist, tónsmíðum, leikskólakennarafræði, þjóðfræði, námi til viðurkennds bókara, bílamálun, ensku, vélfræði, rafiðnfræði, hljóð- og tölvuleikjahönnun, verkefnastjórnun, opinberri stjórnsýslu, japönsku, næringarfræði, náms- og kennslufræði, lögreglu- og löggæslufræði, bakaraiðn, félagsliðanám, fjölskyldumeðferð, matsveinsnám, ljósmyndun, atvinnuflugnám, verkefnastjórnun, heilbrigðisgagnafræði, kjötiðn, lyfjafræði, rennismíði, miðlun og almannatengslum og bráðatækninámi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.