Sigurkarfan hjá 11. fl. karla þegar 2,7 sek. voru eftir af leiknum - myndband

11. flokkur karla á móti Vestra í Síkinu um helgina. Mynd og texti : Hjalti Vignir Sævaldsson.
11. flokkur karla á móti Vestra í Síkinu um helgina. Mynd og texti : Hjalti Vignir Sævaldsson.

Um helgina mættust Tindastóll og Vestri í 11. flokki karla í Síkinu og var fyrri leikurinn spilaður á laugardeginum og sá seinni á sunnudeginum. Hart var barist frá fyrstu sekúndu í fyrri leiknum og okkar strákar alltaf skrefi á undan en Vestramenn komu alltaf til baka og staðan í hálfleik 39-35 fyrir Tindastól. Áfram hélt baráttan í seinni hálfleik og var greinilegt að hvorugt liðið ætlaði að gefa eftir. Þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum komust Vestramenn einu stigi yfir og Tindastóll tók leikhlé til að setja upp í kerfi. Innkastið var tekið og átti Axel Arnars lokaskotið og skoraði sigurkörfuna þegar 2,7 sekúndur voru eftir af leiktímanum og fögnuðu strákarnir vel í leikslok. 

Á sunnudeginum mættust liðin í seinni leik helgarinnar og var staðan 19-11 fyrir okkar strákum eftir fyrsta leikhluta þar sem þeir hittu fjórum þrisum. En áfram hélt baráttan og undir lok hálfleiksins gáfum við eftir og staðan 30-26 fyrir Tindastól. Í þriðja leikhluta var sama upp á teningnum og lauk honum 46-38. Vestramenn komu ákveðnari til leiks í fjórða leikhluta og þrátt fyrir fullt af opnum skotum hjá okkar strákum vildi boltinn ekki ofan í og unnu Vestramenn leikinn 58-62.

Eftir leiki helgarinnar situr 11. flokkur karla í 6. sæti í 2.deildinni með átta stig eftir níu leiki, fjórir sigrar og fimm töp. Þeir eiga næst leik gegn Þór Ak. þann 25. janúar í Glerárskóla sem sitja í níunda sæti. 

Hér má sjá þegar Axel Arnars skorðaði sigurkörfuna þegar 2,7 sek. voru eftir af leiktímanum í fyrri leik liðanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir