Sérfræðingarútan úti á túni :: Leiðari Feykis
Nú er riðlakeppni HM í handbolta nýlokið og því miður komst íslenska liðið ekki í átta liða úrslit eins og vonir stóðu til fyrir mót. Liðið er úr leik og hafnaði í 12. sæti keppninnar. Ljóst er að árangur liðsins hefur valdið ákveðnum hópi gríðarlegum vonbrigðum sem ræðir um að þjálfarinn verði að axla ábyrgð og taka pokann sinn.
Einnig virðist árangurinn langt utan væntingaramma landsliðsmannanna sjálfra samanber afsökunarbeiðni Elliða Snæs Viðarssonar, leikmanns íslenska landsliðsins, til þjóðarinnar vegna þeirrar hneisu að hafa látið í minni pokann gegn ríkjandi Evrópumeisturum Svía í öðrum leik liðsins í milliriðlinum. „Mér líður illa og ég vill byrja á því að segja sorry við þjóðina,“ sagði Elliði Snær í viðtali á Vísi eftir fimm marka tap liðsins gegn Svíum.
Menn eru alveg í öngum sínum yfir þessari sneypuför liðsins og eru fréttatímar útvarps og sjónvarps helgaðir vonbrigðum með glatað tækifæri til að verða heimsmeistarar líkt og fréttir netmiðlanna. Mig grunar þó að þegar rykið hefur sest og fólk fer að rýna í stöðuna þá spyrji einhverjir; af hverju gerðum við þessar kröfur á liðið? Kíkjum á árangur Íslendinga á síðustu heimsmeistaramótum:
2021 – HM í Egyptalandi: Ísland endaði í 20. sæti.
2019 – HM í Þýskalandi: Ísland endaði í 14. sæti.
2017 – HM í Frakklandi: Ísland endaði í 14. sæti.
2015 – HM í Katar: Ísland endaði í 11. sæti.
2013 – HM á Spáni: Ísland endaði í 12. sæti.
„Allt í lagi,“ sagði Logi Geirsson, einn sérfræðinganna í HM stofu RÚV, „Við verðum þá bara Evrópumeistarar á næsta ári!“ en Logi var einn þeirra sem spáði liðinu heimsmeistaratitlinum. Kíkjum þá á árangur liðsins á síðustu Evrópumótum:
2022 – EM í Ungverjalandi og Slóvakíu: Ísland endaði í 6. sæti.
2020 – EM í Svíþjóð: Ísland endaði í 11. sæti.
2018 – EM í Króatíu: Ísland endaði í 13. sæti.
2016 – EM í Póllandi: Ísland endaði í 13. sæti.
2014 – EM í Danmörku: Ísland endaði í 5. sæti.
2012 – EM í Serbíu: Ísland endaði í 10. sæti.
Eigum við ekki bara að stilla væntingum í hóf og sætta okkur við það að barningurinn snýst um að vera á topp tíu á heimslistanum? Ef einhverjir ættu að biðjast afsökunar eru það sérfræðingarnir, hvort sem þeir sitja í stúdíói eða í sófanum í stofunni heima, sem gerðu óraunhæfar kröfur á annars frábært lið Íslands.
En vinnum Júróvision í vor!
Góðar stundir og áfram Ísland!
Páll Friðriksson, ritstjóri
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.