Saturday Night Fever í fyrsta sinn á íslensku leiksviði - Frumsýning á sunnudagskvöld
„Hver man ekki eftir John Travolta leika töffarann Tony Mareno í Saturday Night Fever og geggjuðu Bee Gees lögin sem eru í myndinni. Legendary mynd sem kom Travolta og Bee Gees á kortið og síðar heimsfrægð,“ svarar Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, annar leikstjóri sýningarinnar, þegar hún er spurð út í uppfærslu Nemendafélags Fjölbrautaskólans á leikritinu Saturday Night Fever.
Sigurlaug, eða Silla eins og hún er gjarna kölluð, segir að þegar óskað hafi verið eftir sýningarleyfi á leikritinu hafi komið í ljós að ekkert íslenskt leikfélag hefði óskað eftir því áður og því ekki til samþykkt íslensk leikgerð. „Þá var haft samband við Guðjón Ólafsson, bróðir Maríu Grétu okkar, sem hefur þýtt fjöldann allan af handritum. Þá vantaði okkur íslenska söngtexta við þessi frábæru lög og þá komu engir aðrir til greina en sviðsdúóið Gunnar Rögnvaldsson og Íris Olga Lúðvíksdóttir sem voru ekki lengi að vippa textunum glæsilega á okkar fallega ylhýra. Þannig að nemendur Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra eru ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur eru með ALHEIMSFRUMSÝNINGU hérna í Bifröst og eru búin að leggja blóð, svita, tár, hlátur og mikið svefnleysi í að setja upp glæsilega sýningu.“
Silla segir nemendur smíðadeildar skólans hafa séð um leikmyndina og nemendafélagið staðið í ströngu við að mála, finna leikmuni, búninga og halda utan um allt sem kemur að sýningunni. Þrjátíu leikarar koma fram í sýningunni en alls um 50 nemendur sem koma að uppsetningunni.
„Dansarnir eru einnig rosalega mikilvægir og risa stór partur af sýningunni. Ívar Helgason, dansstjóri, hefur í alls konar veðrum rúllað yfir heiðina og séð til þess að allir kunni réttu skrefin og séu í fíling,“ útskýrir hún.
Framkvæmdir hafa staðið yfir í Bifröst og vegna þeirra hefur þurft að seinka frumsýningu og verður sýningartími einnig styttri en ella og segir Eysteinn Ívar Guðbrandsson, hinn leikstjóri sýningarinnar, að í stað þess að geta æft í þrjár til fjórar vikur í sýningarhúsnæðinu, eins og venjan er við uppsetningu leiksýningar, þá fengum við níu daga sem þýddi mikið álag og mikla keyrslu. Það hefur lítið verið sofið og allir breyttu heimilisfangi sínu í Bifröst þessa daga,“ útskýrir Eysteinn glaðhlakkalega.
Þau mæðgin leggja áherslu á að sem samfélag verði að standa jafn þétt að sviðslistanámi eins og íþróttanámi. „Það myndi enginn vilja að barnið sitt æfði fótbolta úti í mýri og keppti síðan uppi á Nöfum. Því verðum við í sameiningu að sjá til þess að aðstaðan til sviðslista sé til staðar fyrir alla hópa, annars glötum við sem samfélag þessu mikilvæga námi sem skilar okkur þeim fallega menningar arfi sem við erum svo heppin að eiga hér í Skagafirði,“ segir Silla.
Að sögn leikstjóranna hefur ferðalagið skapað mjög þéttheldinn, fallegan og samhentan hóp sem getur klárlega afrekað allt sem hann vill. „Kærar þakkir til allra sem lagt hafa okkur lið og stuðning við uppsetninguna og kærar þakkir til fjölskyldna alls leikhópsins.
Takk fyrir okkur og alla samveruna elsku fallegi, stórkostlegi, hæfileikaríki og snilldar leikhópur, það hefur verið sannkölluð gæfa og gleði að hafa fengið tækifæri til að vinna með ykkur,“ segja þau Silla og Eysteinn og minna á að enginn megi missa af þessari sýningu hjá þessum snillingum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.