Samfylkingin stefnir í ríkisstjórn
Samfylkingin – Jafnaðarflokkur Íslands sendir út ákall til fólks með jafnaðartaug um land allt: „Nú er rétti tíminn til að koma með og mæta til leiks. Við höfum dýrmætan tíma fram að næstu kosningum til Alþingis sem við hyggjumst nýta til fulls,“ segir í tilkynningu flokksins en Samfylkingin hefur hafið undirbúning og verður klár þegar kallið kemur; ekki bara fyrir kosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar heldur fyrir þau risastóru verkefni sem þá munu blasa við flokknum.
"Samfylkingin stefnir í ríkisstjórn og fyrir því er aðeins ein ástæða: Verkefnin sem kalla. Eftir óslitinn áratug af hægristefnu í efnahags- og velferðarmálum blasa hvarvetna við okkur verkefni sem kalla á klassískar lausnir jafnaðarfólks og sem kalla á okkur sósíaldemókrata til verka.
Við viljum að fólk geti lifað sómasamlegu lífi af laununum sínum, búið við öryggi á húsnæðismarkaði og sótt sér heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki þegar eitthvað kemur upp á.
Höfuðverkefni næstu ára verður að endurreisa velferðarkerfið á Íslandi eftir áratug hnignunar. Það er okkar pólitíska sannfæring og lykillinn að því að ná aftur stjórn á þróun efnahagsmála, verðbólgu og vöxtum, í breiðri sátt við verkalýðshreyfingu og atvinnulíf.
Ríkisstjórnin hefur misst alla stjórn
Ríkisstjórnin hefur misst alla stjórn. Ríkisstjórnin hefur misst stjórn á verðbólgunni og vöxtunum og hafði fyrir löngu misst stjórn á velferðarkerfinu og húsnæðismálunum. Það er ástæða þeirrar miklu ólgu sem brotist hefur út í átökum á vinnumarkaði.
Forystufólk ríkisstjórnarinnar bendir bara á aðra og tekur enga ábyrgð. Samfylkingin hefur hins vegar kynnt kjarapakka til að mæta ástandinu sem heldur enn gildi sínu. Grunnhugmynd kjarapakkans var einföld: Að taka á þenslunni þar sem þenslan er í raun og veru — eftir metár í fjármagnstekjum, metarðsemi hjá stórútgerð og methagnað hjá bönkunum.
Þá hefur flokkurinn lagt til tímabundna leigubremsu að danskri fyrirmynd og verið algjörlega samstíga með verkalýðshreyfingunni í því máli. Við höfum haldið uppi einbeittum málflutningi á Alþingi og munum áfram þrýsta á þessar aðgerðir til að vinna gegn verðbólgunni og um leið verja heimilisbókhaldið. Með því að leggja fram raunhæfar lausnir sýnum við ábyrgð og sýnum á sama tíma fólkinu í landinu hvernig Samfylkingin mun stjórna.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.