Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra fær styrk frá Rannís
„Þær gleðifregnir bárust í gær að Rannsóknasetrið hlaut styrk úr Innviðasjóði fyrir langvarandi verkefni okkar um gerð gagnagrunns sáttanefndabóka,“ skrifar Vilhelm Vilhelmsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, á Facebook. Hann segir að með styrknum hafi verkefnið verið að fullu fjármagnað og hægt að ljúka því á tilsettum tíma, á fyrri hluta ársins 2024.
Vilhelm Vilhelmsson
Styrkur Rannsóknasetursins er rúmar tólf milljónir króna en á heimasíðu Rannís kemur fram að alls hafi sjóðnum borist 41 umsókn og þar af 33 gildar umsóknir sem voru metnar af fagráði. Samtals var sótt um 1.319 milljónir króna til sjóðsins; 913 milljónir til sex verkefna á vegvísi og um 406 milljónir til 27 verkefna utan vegvísis.
Styrkir til verkefna á vegvísi eru talsvert viðameiri en almennir styrkir en öll verkefnin sex á vegvísi hlutu styrk auk sjö annarra verkefna, samtals rúmlega 531 milljón króna. Styrkir til vegvísaverkefna eru 81% af heildarúthlutun.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.