ÖRUGG verkfræðistofa opnar starfsstöð á Blönduósi

ÖRUGG verkfræðistofa hefur nú opnað útibú á Blönduósi til að sinna auknum verkefnum á Norðurlandi. Starfsmaður skrifstofunnar á Blönduósi er Elvar Ingi Jóhannesson og er hann að jafnaði með viðveru þar alla virka daga. ÖRUGG verkfræðistofa var stofnuð í ársbyrjun 2020 og hefur á skömmum tíma orðið leiðandi á landinu á sínum sérsviðum. Hjá stofunni starfa nú um 15 manns við bruna- og öryggishönnun, BIM stjórnun, vindgreiningar og umhverfis- og vinnuvernd.

Að sögn Böðvars Tómassonar, framkvæmdastjóra ÖRUGG, eru mikil tækifæri fólgin í opnun útibúsins: „Með þessu opnast tækifæri til að vera í auknu návígi við verkefni okkar á Norðvesturlandi. Meðvitund verkkaupa og almennings um mikilvægi öryggis, umhverfismála og vinnuverndar fer sífellt vaxandi og með opnun skrifstofunnar hér á Blönduósi gefst okkur kostur á að þjónusta þetta vaxtarsvæði betur en ella.“

Meðal verkefna á svæðinu sem ÖRUGG hefur undanfarið komið að eru brunahönnun endurbóta Hótel Blönduóss, brunatæknileg úttekt Faxatorgs 1 á Sauðárkróki og brunahönnun viðbyggingar og endurbóta Varmahlíðarskóla. Útibú ÖRUGG á Blönduósi er á Húnabraut 13 en aðalskrifstofan er til húsa í Kringlunni 7 í Reykjavík - Húsi verslunarinnar.

Þess má geta að ÖRUGG er ávallt að leita eftir kraftmiklu og metnaðarfullu starfsfólki, hvort heldur er til starfa á Blönduósi eða á aðalskrifstofunni í Reykjavík. Sjá má yfirlit yfir störf í boði á heimasíðu stofunnar, www.oruggverk.is.
/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir