Opnunarteiti Hótel Blönduóss
Það verður hrært í góða veislu á Blönduósi á morgun þegar heimamenn fagna opnun Hótel Blönduóss eftir fegrunaraðgerðir og allsherjar uppstrílun. Opnunarteiti verður frá kl. 14 til 17 þar sem Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps mætir í hátíðarskapi og Hugrún Sif og Tríó Halla Guðmunds koma fram. Að sjálfsögðu verða veitingar í boði og að auki býðst fólki að skoða Krúttið, hótelið, kirkjuna og Helgafellið.
Samkvæmt upplýsingum Feykis verður teitið mjög frjálslegt enda fyrst og fremst verið að bjóða fólki að sjá hvað búið er að gera síðustu mánuði í uppbyggingu húsanna í Gamla bænum en framkvæmdir eru enn í fullum gangi og verið að leggja lokahönd á þær.
Þá má geta þess að í Tríói Halla Guðmunds eru auk Halla meistararnir Matthías Hemstock og Ómar Guðjónsson.
Allir eru hjartanlega velkomnir en Hótel Blönduós opnar fyrir gesti mánudaginn 15. maí.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.