Opið hús á Brúnastöðum í Fljótum í tilefni af Beint frá býli deginum

Það kennir ýmissa grasa á Brúnastöðum og það er fallegt í Fljótum. MYND AF FB
Það kennir ýmissa grasa á Brúnastöðum og það er fallegt í Fljótum. MYND AF FB

Haldið verður upp á Beint frá býli daginn sunnudaginn 18. ágúst og af því tilefni verða viðburðir í hverjum landshluta. Hér á Norðurlandi vestra munu bændur á Brúnastöðum í Fljótum opna býli sitt fyrir gestum í tilefni dagsins sem er nú haldinn annað árið í röð. Þennan dag munu heimavinnsluaðilar og smáframleiðendur matvæla úr landshlutanum mæta á Brúnastaði til að kynna og selja vörur sínar.

Á Brúnastöðum munu gestir fá ókeypis kökusneið, kaffi og djús í boði Beint frá býli. Matarmarkaðurinn verður í tjöldum á svæðinu, úrval af heimagerðu bakkelsi og ís til sölu í litlu sveitabúðinni á býlinu ásamt drykkjum og vörum framleiddum á býlinu.

Í húsdýragarði býlisins eru geitur, kið, lömb, grísir, kalkúnar, kálfar, hestar, kanínur og margar tegundir af hænum. Það er helmings afsláttur af aðgangi í húsdýragarðinn þennan dag.

Þá má minna á að á Brúnastöðum eru rólur, trampólín og sandkassi fyrir yngstu gestina en einnig geta gestir skoðað aðstöðu til geitamjalta og ostagerðar heima á býlinu.

Sitt hvoru megin við Norðurland vestra má síðan minna á fjölskylduviðburð og matarmarkað í Svartárkoti í Bárðardal í Þingeyjarsýslu og þá hefur Feykir einnig sagt frá húllumhæi á Sauðfjársetrinu á Ströndum þar sem keppt verður í hrútadómum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir