Ólafur Freyr hlýtur verðlaun úr sjóði Halldórs Hansen
Ólafur Freyr Birkisson, söngvari frá Höllustöðum í Blöndudal, heldur áfram að gera það gott í sinni listgrein. Sunnudaginn sl. hlaut hann verðlaun úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen.
Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Listaháskóla Íslands en þaðan útskrifaðist hann einmitt í vor úr bakkarlárnámi í söng frá tónlistardeild.
Umsögn dómnefndar styrktarsjóðsins er eftirfarandi:
Ólafur Freyr Birkisson bass-barítón býr yfir miklu listrænu innsæi og góðri tilfinningu fyrir mismunandi stíltegundum. Rödd hans er blæbrigðarík og hljómfögur og hefur hann einstaklega jafna og heilbrigða raddbeitingu. Ólafur Freyr hefur þegar látið að sér kveða í íslensku tónlistarlífi, tekið þátt í óperuuppfærslum og komið fram á ótal tónleikum og við fjölmörg tækifæri innan skóla sem utan. Hann hefur verið virkur í samstarfi við tónskáld og flutningi nýrra verka. Meðal þessara verkefna er verðlaunasýningin Ekkert er sorglegra en manneskjan eftir Friðrik-Margrétar Guðmundsson og Adolf Smára Unnarsson, ævintýraóperan Mærþöll eftir Þórunni Guðmundsdóttur og óperan Ravens Kiss eftr Evan Fein og Þorvald Davíð Kristjánsson. Lokatónleikar hans frá Listaháskóla Íslands voru einstaklega vel heppnaðir, bæði hvað verkefnaval og flutning snertir. Þá frumflutti hann ljóðaflokk eftir Stefan Sand á útskriftartónleikum í tónsmíðum og kom nýverið fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem verðlaunahafi í samkeppni Sinfóníunnar og Listaháskóla Íslands, Ungir Einleikarar, þar sem frammistaða hans var einkar glæsileg.
Feykir hafði samband við Ólaf og forvitnaðist um hvað sé á döfinni hjá honum.
„Það er hitt og þetta. Þessa stundina er ég að taka upp nýsamdan ljóðaflokk á plötu. Tónskáldið er Stefan Sand Groves og með mér spilar Erna Vala Arnardóttir. Við verðum með útgáfutónleika fyrir fyrir þennan nýja flokk í nóvember í Salnum í Kópavogi, þar mun ég spila á eitt stykki langspil.“
„Einnig er ég partur af verkefni sem heitir Look at the music sem Stefan Sand Groves er einnig forsprakki að. Þar er ég í kór sem heldur tónleika þar sem ætlunin er að bjóða heyrnarlausu fólki upp á sömu upplifun og heyrandi. Við förum með þetta verkefni til Færeyja, Köben og Osló í haust, vinnum með heyrnarlausu fólki og semjum ný verk á hverjum stað. Endar svo með tónleikum hér heima. Þetta er svona það sem er í pípunum.“
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.