Nýjasta rit Húnavöku komið í dreifingu
Ungmennasamband Austur-Húnvetninga hefur gefið út ársritið Húnavöku frá árinu 1961. Nýverið kom út 61. og 62. árgangur ritsins í einni bók, en lítil þúfa í formi veiru setti allt skipulag og undirbúning útgáfunnar úr skorðum um stund. Feykir setti sig í samband við Magdalenu Berglindi Björnsdóttur, ritstjóra Húnavökunnar, og spurðist fyrir um efnistök.
„Í Húnavökuritinu má að venju finna fjölbreytt efni sem núverandi og brottfluttir Húnvetningar hafa samið og/eða safnað og sent ritnefnd til birtingar í ritinu. Þar má að þessu sinni finna viðtal við Sigríði Höskuldsdóttur á Kagaðarhóli, kveðskap, fjölbreyttar frásagnir, endurminningar og smásögur. Austur-Húnvetninga, sem kvöddu þessa tilveru á árunum 2020 og 2021, er minnst og myndir eru af nýfæddum börnum og ungmennum á „fermingaraldri“ - sem að vísu er teygjanlegt hugtak þegar bið verður á útgáfu ritsins líkt og raunin var nú,“ segir Berglind.
„Meðal efnis í ritinu má nefna grein Grétu Björnsdóttur á Húnsstöðum um sveitasímann, en hún safnaði og skráði hringingar á bæi sýslunnar. Þær upplýsingar var hvergi að finna nema í minni íbúa svæðisins þar til nú. Jón Torfason frá Torfalæk skrifaði um Mánahaug sem finna má á hákolli Illviðrishnjúks á Laxárdalsfjalli. Jón komst að því að ekki var allt rétt sem munnmælasögur í sveitinni sögðu um tilurð haugsins. Mjög áhugaverð grein svo ekki sé meira sagt,“ bætir Berglind við en hún nefnir að í ritinu séu ávallt fréttir úr héraði og megi í Húnavöku finna góðar heimildir um atvinnu- og mannlíf, íþróttir og menningu í sýslunni. „Að þessu sinni eru fréttirnar frá þessum tveimur árum, 2020 og 2021.“
Ritið er um 270 blaðsíður og því ekki hægt að segja frá öllu því góða efni sem í því er. Hvetur Berglind áhugasama lesendur til að senda póst á usah540@simnet.is og panta sér eintak. Ritið kostar 3.000 krónur.
„Samhliða því að taka á móti ritinu úr prentun var ákveðið að byrja undirbúning að næstu útgáfu strax og koma vinnunni á „rétt ról“. Ritnefndin hefur því hafist handa við efnisöflun, svo von er á annarri bók á vordögum eins og venja var áður en fyrrnefnd þúfa varð á vegi útgáfunnar,“ segir Berglind að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.