Nóg um að vera fyrir alla fjölskylduna á Húnavöku

Frá Húnavöku í fyrra. Mynd: ÓAB
Frá Húnavöku í fyrra. Mynd: ÓAB

Nú um næstkomandi helgi fer fram Húnavaka fram á Blönduósi dagana 13. – 16. júlí. Þetta er í tuttugasta skiptið sem hátíðin fer fram í núverandi mynd en Húnvetningar hafa áratugum saman gert sér dagamun undir yfirskriftinni Húnavaka.

Hér á árum áður var hún þó haldin á útmánuðum í tengslum við árstíðarskipti og var þá menningin allsráðandi og vann hún sér fastan sess í hugum Húnvetninga. Markmið Húnavöku er ennþá það sama, að skapa vettvang þar sem íbúar og gestir geta sameinast og átt góðar stundir, að sögn Kristínar Ingu Lárusdóttur, Menningar-, íþrótta og tómstundafulltrúa Húnabyggðar, en Feykir ræddi við hana um hátíðina.

„Við viljum efla ímynd Húnabyggðar sem býr yfir kröftugu menningar- og atvinnulífi og fá tækifæri til að sýna gestum okkar þá möguleika sem hér eru bæði til búsetu og í atvinnu. Einnig er markmiðið að fá íbúa og gesti til að njóta þess sem við höfum upp á að bjóða hér í Húnabyggð og nágrenni. Húnavaka á sér langa sögu sem menningarviðburður í héraði. Margar skemmtilegar hefðir hafa skapast í kringum þessa frábæru fjölskylduhátíð. Tilgangurinn er að standa fyrir viðburðum þar sem íbúar og aðrir gestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Helsta áherslan er á tónlist og barna- og fjölskylduskemmtun,“ segir Kristín.

Hvernig hvetjið þið íbúa Blönduóss og nærumhverfi til að vera virkir þátttakendur í hátíðinni og hvernig hefur það gengið? „Á hverju ári er reynt að virkja heimamenn til að taka þátt, bæði til þess að sjá um staka viðburði og til þess að koma fram sem listamenn. Íbúar eru einnig hvattir til að skreyta og gera fínt í sínu nærumhverfi. Það hefur gengið misvel að fá íbúa til að taka þátt.“

Hverskonar undirbúning þarf til að halda hátíðina? „Strax eftir Húnavöku hvers árs er farið að huga að þeirri næstu og farið yfir hvað var vel gert og hvað mætti betur fara. Svo er farið að huga að því að panta skemmtikrafta og gera beinagrind af dagskrá. Mesti þunginn í skipulagningu byrjar svo í mars/apríl en þá er farið í að sjóða saman dagskránna, markaðssetja hátíðina og vinna við öflun styrkja í auglýsingabækling sem gefinn er út 2 vikum fyrir hátíðina.“

Getur þú talið upp helstu atriði hátíðarinnar og hvers má vænta? Við störtum Húnavöku þetta árið með því að bjóða öllum í grillveislu framan við félagsheimilið á Blönduósi. Um kvöldið verða svo tónleikar og styrktarbingó. Á föstudeginum verður Leikhópurinn Lotta með sýningu á leikritinu Gilitrutt. Föstudagurinn endar svo með Stórdansleik með Páli Óskari í félagsheimilinu á Blönduósi. Laugardagurinn er stútfullur af alls konar viðburðum og skemmtunum, en þar ber hæst fjölskyldudagskrá við íþróttamiðstöðina og svo tónleikar um kvöldið. Laugardagurinn endar svo með stórdansleik með Bandmönnum í félagsheimilinu á Blönduósi. Á sunnudeginum verðum við með froðurennibraut, það verða tónleikar í Heimilisiðnaðarsafninu, bíósýning og margt fleira. Að lokum vil ég hvetja alla íbúa Húnabyggðar til að skreyta hjá sér og koma sér þannig í gírinn fyrir frábæra helgi sem er framundan. Einnig bjóðum við alla velkomna á Húnavöku. Það er nóg um að vera fyrir alla fjölskylduna. Dagskrá og allar upplýsingar er að finna á facebook- síðu Húnavöku.

 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir