N4 óskar eftir gjaldþrotaskiptum eftir 15 ára hark

Skjámynd af Facebook-síðu N4.
Skjámynd af Facebook-síðu N4.

N4 ehf. hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum eftir að tilraunir til að tryggja framtíð fyrirtækisins báru ekki árangur. N4 hefur haldið úti metnaðarfullri sjónvarpsdagskrá með landsbyggðina í fyrirrúmi í 15 ár, gefið út dagskrárblað auk þess sem um tíma var gefið út blað sem byggði á efni stöðvarinnar. Króksarinn María Björk Ingvadóttir hefur verið í forsvari fyrir N4 síðustu árin og barist ötullega fyrir viðgangi stöðvarinnar en þar hafa nokkrir sprækir Skagfirðingar til viðbótar látið ljós sitt skína.

Í tilkynningu á Facebook-síðu N4 segir: „N4 hefur framleitt íslenskt efni undanfarin 15 ár. Fólkið í landinu hefur verið í brennidepli í allri framleiðslu efnis. N4 hefur varðveitt sögu þjóðarinnar. Þessum kafla í sögu fjölmiðla á Íslandi er lokið að sinni.

Rekstur fjölmiðils eins og N4 hefur byggt á óeigingjörnu starfi starfsfólks í sífellt erfiðara rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi. Fyrir það á starfsfólkið mikið hrós skilið.

Stjórn fyrirtækisins harmar þessa niðurstöðu, ekki síst í ljósi þess að N4 hefur verið leiðandi fjölmiðill í framleiðslu á íslensku sjónvarpsefni utan höfuðborgarsvæðisins.“

Það er mikil eftirsjá af N4. Hildur Eir Bolladóttir, prestur á Akureyri og fyrrum heimasæta á Hólum í Hjaltadal, setti eftirfarandi færslu á Facebook-síðu sína og þar má taka undir hvert orð: N4 lagði sig eftir því að segja sögur fólksins á landsbyggðinni á afslappaðan máta sem með tímanum útrýmdi mýtunni um allt skrýtna fólkið í sveitinni. Það eru vondar fréttir að eina sjónvarpsstöðin á landinu sem ekki gerir út á að tala við frægt fólk skuli leggjast af, þar með hefur sjónarhorn okkar á samfélagið heldur þrengst.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir