Mjólkurbikar karla rúllar af stað um helgina
Karlafótboltinn fer af stað fyrir alvöru nú um helgina en þá fer fyrsta umferðin í Mjólkurbikarnum í gang. Bæði lið Tindastóls og Kormáks/Hvatar verða í eldlínunni en hjá liði Húnvetninga verður um að ræða fyrsta leik liðsins frá því síðasta haust en liði hefur verið safnað um nokkurt skeið og frumsýning á mannskapnum því nú um helgina.
Lið Tindastóls hefur leik á laugardaginn og mætir þá Hömrunum á Greifavellinum á Akureyri en leikurinn hefst á hádegi. Á sunnudag spilar lið Kormáks/Hvatar síðan við lið KÁ á Ásvöllum í Hafnarfirði og hefst sparkið kl. 16:00.
Uris Duric til liðs við Kormák/Hvöt
Nú í vikunni bættu Húnvetningar einu mikilvægu púsli við leikmannahópinn sinn því það er alltaf betra að vera með markmann. Um er að ræða reyndan leikmann, Uros Duric, sem hefur leikið í serbnesku A, B og C deildunum ásamt því að hafa varið mörk bæði í A-deildum í Makedóníu og Albaníu. „Án þess að fara of djúpt í saumana, þá er sennilega hér á ferðinni stærsti prófíll sem hefur gengið til liðs við Kormák Hvöt. Það er ekki á hverjum degi sem hingað mætir kappi með leikreynslu úr þremur Pepsídeildum, svo spennandi verður að sjá kappann í aksjón,“ segir í tilkynningu á Aðdáendasíðu Kormáks.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.