Lið FNV áfram í 16 liða úrslit Gettu betur
Spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, er komin í gang enn eitt skiptið og að sjálfsögðu sendir Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra lið til leiks. Lið FNV þreytti frumraun sína þennan veturinn síðastliðið mánudagskvöld þar sem spekingar okkar mættu liði Menntaskólans í Kópavogi. Eftir jafnræði í hraðaspurningum tók lið FNV öll völd í bjölluspurningunum og sigraði með stæl, 21–9.
Runnið er upp 38. keppnisár Gettu betur og að þessu sinni taka 25 skólar þátt. Liðin hefja undirbúning snemma á skólaárinu og þannig var til dæmis úrtökupróf fyrir keppnina hjá FNV þann 29. ágúst sl. Þá voru nemendur hvattir til að mæta og spreyta sig á laufléttum og skemmtilegum spurningum. Ágúst Ingi Ágústsson, sagnfræðikennari við FNV, er þjálfari liðsins. Hann tjáði Feyki að í kjölfar úrtökuprófsins hefði verið valinn sex manna æfingahópur sem hefur æft einu sinni til tvisvar í viku frá skólabyrjun.
Lið FNV skipa þau Óskar Aron Stefánsson frá Álfheimum í Skagafirði, Alexander Viktor Jóhannesson frá Þorgrímsstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu og Íris Helga Aradóttir búsett á Bárastígnum á Króknum. Með sigrinum á mánudag tryggði FNV sér sæti í 16 liða úrslitum keppninnar sem fram fara 16. og 18. janúar eða semsagt strax í næstu viku. SIgurvegarar þar komast í átta liða úrslit sem fara fram í Sjónvarpinu.
Feykir óskar liði FNV til lukku með sigurinn og áframhaldandi velgengni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.