Leikmaður Kormáks/Hvatar í bann fyrir að bíta andstæðing

Í leik milli Kára og Kormáks/Hvatar sem fram fór í Akraneshöllinni í sjöundu umferð 3. Deildar karla, fóru fimm rauð spjöld á loft. Leikurinn endaði 1-1 og var mikill hiti milli liðanna.

Á 22. mínútu leiksins beit Alberto Sánchez Montilla leikmann Kára í fótinn er þeir lágu báðir í grasinu eftir að brotið var á Alberto.

Mikil umræða myndaðist um atvikið á samfélagsmiðlum og á Facebook-síðu Kára var kallað eftir langri refsingu fyrir athæfið.

Ótrúlegur og ógeðfelldur atburður átti sér stað í dag í leik Kára og Kormáks/Hvatar þegar Alberto Sánchez Montilla ákvað að bíta Hilmar Halldórsson í fótinn þegar þeir lágu saman hlið við hlið eftir samstuð. Hilmar Halldórsson á leið í stífkrampasprautu í fyrramálið eftir þetta ógeðfellda athæfi. Alberto fékk rautt spjald í leiknum, en líka Marinó Hilmar er hann ýtti Alberto af Hilmari þegar Alberto var að bíta Hilmar sem ættu jú að þykja eðlileg viðbrögð við jafn ógeðfelldum aðstæðum. Vonum bara að við svona sturlun fylgi löng refsing, því enginn vill sjá bítandi leikmenn á fótboltavellinum.“

Aðdáendasíða Kormáks hvatti í kjölfarið fólk til að anda með nefinu og vitnaði í Biblíuna.

Í kjölfar hasar í leik dagsins og fréttaflutningi þar sem eina 'heimildin' er Facebook síða andstæðingsins, minnum við landsmenn á að anda með nefinu. Málið verður líkast til kannað og þaðan verða næstu skref tekin. Ekki í kommentum eða heitum pottum.

Sannleikurinn mun gera yður frjálsa (Jóh. 8.31)

 

Alberto var dæmdur í fjögurra leikja bann „grófa óíþróttamannslega framkomu“ líkt og segir í skýringu í úrskurði aganefndar KSÍ.

 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir