Lærði krosssaum fyrir ári!

Kári með nýsaumað teppið. MYND GG
Kári með nýsaumað teppið. MYND GG

Kári Steindórsson flutti aftur heim á Krókinn eftir að hafa búið í Vestmanneyjum þegar hann hætti að vinna 2013. Kári var lengi til sjós og þekkir illa að sitja við og hafa ekkert fyrir stafni. Þegar fæturnir fara að láta undan og ekki hægt að vinna lengur þau störf sem áður voru unnin þarf að finna sér eitthvað til til handagagns. Kári fékk stelpurnar í Dagvistinni eins og hann kallar þær sjálfur til að kenna sér að sauma út og hefur nú lokið við „Litla riddarateppið“ sem er alls ekki svo lítið.

Ertu búin að vera að sauma lengi? „Nei ég byrjaði bara fyrir ári síðan, var alltaf í að perla fyrst og vinna við ýmsa smáhluti eins og gert er í föndrinu í Dagdvöl aldraðra á Sauðárkóki og datt mér allt í einu í hug hvort þær vildu kenna mér krosssaum. Hvort það væri mjög ansalegt og hvort ég yrði fyrir miklum fordómum,“segir Kári og hlær. „Þær tóku því náttúrlega mjög vel og hún Kata Gísla kenndi mér þetta, stóð sig eins og hetja við það.“

Kári saumaði eins og berserkur heima, „þá hafði ég eitthvað fyrir stafni og svo voru kallarnir að koma í heimsókn Raggi á Stöðinni og fleiri og þeir hlógu að mér og ég benti þeim á að þetta væru fordómar og þá hættu þeir að hlægja. Nú hlægja þeir ekki lengur eftir að þeir sáu Riddarateppið. Ég sýndi þeim það að gamall kall gæti þetta engu síður heldur en gömul kona,“ segir Kári.

Blaðamaður skýtur inní í að það séu bara alvöru riddarar sem leggja í þetta teppi en Kári vill meina að það geti þetta allir, það þurfi bara að gefa sér tíma. Vera svolítið gagnrýninn á sjálfan sig og rekja upp alveg hiklaust og ná því fallegu og góðri áferð. „Ég hef þetta dálítið mikið í mér útaf sjómennskunni eða netamennskunni af sjónum en þar teldur maður allt sem maður er að gera, annars er trollið snarvitlaust. Sem er eins og með útsauminn, ef maður telur ekki þá er hann líka snarvitlaust og enginn feill, ef maður gerir feil þá lendir maður bara út á túni. Jafnvel er maður komin langt frá þegar maður áttar sig á að þetta passar ekki saman,“ Kári var að ljúka við að sauma teppi sem kallast „Litla riddarateppið“ Munstrin koma frá Þjóðminjasafinu og eru frá milli 16 og 1700, þá er þetta saumað upphaflega. Kári er nefnilega bara rétt að byrja að sauma, því nú er verið að uppfæra myndinar og laga munstrin hjá Þjóðminjasafninu og í janúar getur hann fengið keypt hjá Íslenskum heimilisiðnaði teppi sem er um það bil helmingi stærra en það sem hann var að ljúka við núna.

Blaðamaður spurði Kára hvort hann þurfi ekki að sauma eitthvað þangað til, hvort maður yrði ekki háður þessu? „Jú ég veit ekkert hvað ég á af mér að gera. Það er rétt rúm vika síðan ég kláraði teppið.“

Kári situr við sauminn heima við gott ljós og notar gleraugun sín til að sjá hvað hann er að gera. Jafinn er gríðarlega þéttur og smágerður og hann segist hafa hlaupið oft yfir og gert vitleysu en við því er ekkert að gera nema fara bara til baka.

„Þetta er svo gott þegar maður hefur ekkert að gera, sumir sitja bara og lesa blöðin og góna á sjónvarpið, það er ekki vel farið með tímann og hentar mér mjög illa, það verða allir vitlausir að sitja og horfa í tólf tíma á sjónvarpið. Ég hlusta alltaf á Storytel á meðan ég sauma, hverja bókina á fætur annarri. Það er svo skrítið með mig sem nánast er fæddur og alin upp á sjó, byrjaði að fara til sjós eitthvað í kringum 13 ára aldurinn, að ég hlusta aldrei á sjómannasögur. Mér finnst þær svo vitlausar, get bara alls ekki hlustað á þær. Ég hef áhuga fyrir því að hlusta á sveitalífssögur, það er hægt að ljúga öllu að mér þar ég hef aldrei í sveit verið. Þekki ekkert þar. En sjómannasögurnar eru fáránlegar, þetta eru einhver prumphænsni sem eru að segja einhverjar montsögur sem eru út í loftið , ég segi eins og Svejk sagði þetta eru bara „prumphænsn,“ segir Kári og vitnar í eina af sínum uppáhalds bókum Góða dátann Svejk eftir Jaroslav Hasek sem er svo einstakleg skemmtilega lesin af leikaranum Gísla Halldórssyni.

Veistu hvað það tók marga klukkutíma að sauma teppið? „Nei nei nei, ég saumaði nú bara þegar ég var upplagður, byrjaði oft svona 11 á morgnana og saumaði kannski til svona fjögur, svo ef mér leiddist dagskráin þá greip ég þetta. Ég gleymdi mér svo við þetta, einhvern tímann var það klukkan hálf níu að kvöldi fyrripart viku og ekkert í sjónvarpinu þannig að ég fór að sauma og ég rankaði við mér hálf tvö um nóttina. Blaðamaður skýtur inní að hann hljóti þá að hafa verið að hlusta á góða bók, hann jánkar því en bætir við að tíminn bara flýgur þegar maður er að þessu. Það er ekkert mikið sem maður skilar á einum klukkutíma. Þetta eru mjög margir klukkutímar. Þess vegna er alveg ógjörningur til dæmis að verðleggja svona. Allavega ekki út frá vinnu,“ segir Kári.

Teppið á eftir að strekkja á blindramma og þá ætlar hann aðeins að sjá til hvort hann fái sér svo annan fallegri ramma utanum. Hann segir að versta sé að húsið hans sé svo lítið að hann veit ekki hvort hann hafi veggi fyrir þetta.

Veistu hvað þú hlustaðir á margar bækur meðan þú varst að sauma? „Nei, en þær voru mjög marga, ég var komin í vandræði með að finna efnivið. Skemmtilegastar finnst mér að hlusta á raunsögur, þær sem gerast í sveitinni, Jón Trausti til dæmis, hann finnst mér mjög góður,allt sem hann hefur skrifað og svo náttúrulega Guðmundur G. Hagalín hann er dásamlegur, sem skrifaði meðal annars um Kristrúnu í Hamravík svo dæmi sé tekið. Svo er ég búin að hlusta á Sölku Völku það er því miður ekki mikið eftir Kiljan á Storytel, en Salka Vala er náttúrulega stórkostleg að hlusta á. Það er svo mikið sem segir manni um fortíðina,þegar maður hlustar á þessar sögur hvernig fólk lifði og þraukaði á þessu vesæla landi. Svo má ég ekki gleyma Hallgrími Helgasyni ég er auðvitað búin að hlusta á hann. Sextíu kíló af sólskyni og sextíu kíló af kjaftshöggum þær eru alveg frábærar,“ segir Kári.

Hvernig líkaði þér að koma á krókinn aftur? „Finnst mjög gott að vera komin heim aftur og að komast aftur gamla bæinn, húsið mitt er við Aðalgötuna, þar sem við brösuðum strákarnir.

Kári kom fyrst í dagvistun kringum 2019 eða 2020 og kemur einu sinni í viku og finnst það bara mjög gott. „Stelpurnar mínar ráku mig í þetta, ég er einn af þeim sem er mjög einrænn og líður vel með teppið í fanginu. Nauðsynlegt að geta haft ofan af fyrir sjálfum sér og við erum sammála um það hversu frábært það sé að læra þá að sauma.“

Blaðamaður talar um að það sé pínu merkilegra að hann hafi lært að sauma af því að hann er karlmaður, það er svo mikið minna um það að karlmenn saumi út og þekkist varla síðan baðstofumenningin var þegar allir sátu með prjónana sína bæði karla og konur og minna um karlmenn í útsaumi heldur en prjóni. Kári segir að lokum að það hafi verið talið að það þyrfti fínar hendur til að sauma út. En það sem kannski mestu máli skiptir er að vera ekki mjög skjálfhentur og hafa sæmilega sjón.

Það verður gaman að fylgjast með hvernig Kára gengur að glíma við næsta teppi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir