Hyggilegt að huga að niðurföllum til að vatn komist leiðar sinnar í hláku morgundagsins

Gul veðurviðvörun um allt land á morgun. Á Norðurlandi vestra tekur hún gildi um hádegi.
Gul veðurviðvörun um allt land á morgun. Á Norðurlandi vestra tekur hún gildi um hádegi.

Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir allt landið vegna veðurs en varað er við asahláku á morgun þegar frostið gefur eftir fyrir hlýjum sunnanþey. Í athugasemd veðurfræðings á heimasíðu Veðurstofunnar kemur fram að spáð er suðaustan hvassviðri eða stormi sunnan- og vestanlands seint í nótt og framan af morgundegi með úrkomu og hlýnandi veðri.

Búast má við 10-18 m/s, rigningu með köflum og hita frá fimm til tólf stig á Norðurlandi vestra og segir á vedur.is að búast megi við talverðu afrennsli vegna úrkomu og snjóbráðnunar og vexti í ám og lækjum. „Ísilagðar ár geta rutt sig og fólk er hvatt til að sýna aðgát vegna þess. Hyggilegt að huga að niðurföllum til að vatn komist leiðar sinnar í fráveitukerfi og forðast vatnstjón. Flughálka er líkleg til að myndast á blautum klaka.“

Lögreglan á Norðurlandi vestra segir á Facebook-síðu sinni að mikilvægt sé að fylgjast vel með veðurspám næstu daga en hægt er að fylgjast með viðvörunum HÉR

Spá fyrir Strandir og Norðurland vestra

Austlæg átt 3-10 síðdegis og bjartviðri. Frost 3 til 12 stig. Suðaustan 13-20 í fyrramálið, sums staðar snjókoma eða slydda og hlýnandi veður. Sunnan 10-18 síðdegis á morgun, rigning öðru hvoru og hiti 5 til 11 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Sunnan og suðvestan 5-13 m/s. Dálítil él eða skúrir á vestanverðu landinu með hita 0 til 5 stig. Hiti 5 til 10 stig á austurhelmingi landsins, auk þess rigning suðaustan til fram eftir degi. Bætir í vind og él vestanlands um kvöldið og hiti þá víða kringum frostmark á landinu.

Á sunnudag:
Suðvestan 13-20 og él, en þurrt að kalla um landið norðaustanvert. Frost 0 til 5 stig.

Á mánudag:
Vestan og suðvestan 3-8, en 8-13 um landið norðanvert. Víða þurrt og bjart veður. Frost 3 til 10 stig.

Á þriðjudag:
Breytileg átt 5-13. Rigning eða slydda sunnanlands og hiti 1 til 5 stig. Snjókoma norðan til á landinu og frost 0 til 5 stig þar.

Á miðvikudag:
Vestan og suðvestanátt og víða bjartviðri. Frost 0 til 6 stig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir