Hvatamaður að nýtingu séreignarsparnaðar til fyrstu fasteignakaupa býður sig fram í stjórn Almenna Lífeyrissjóðsins

Kristófer Már Maronsson, hagfræðingur, býður sig fram í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins en rafræn kosning hófst í hádeginu á  kosningavef og henni lýkur 29. mars. nk. Kristófer Már hefur komið víða við og m.a. verið formaður og framkvæmdastjóri Stúdentaráðs, stjórnarmaður hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, rekstrar- og fjármálastjóri hjá aha.is og starfar nú sem sérfræðingur hjá Byggðastofnun ásamt því að sitja í stjórn Fjallalambs hf.

Almenni lífeyrissjóðurinn er öllum opinn en hann er jafnframt starfsgreinasjóður arkitekta, leiðsögumanna, lækna, hljómlistarmanna og tæknifræðinga. Atkvæðabærir sjóðfélagar eru tæplega 57 þúsund talsins en allir sem hafa einhvern tímann greitt í sjóðinn hafa atkvæðisrétt.

Kristófer Már hefur látið sig lífeyrismál varða í gegnum tíðina en árið 2016 var hann hvatamaður að umræðu um aukið frjálsræði við nýtingu séreignarsparnaðar til fasteignakaupa og afborgana af húsnæðislánum. Umræðan fór á flug eftir pistil Kristófers og mætti hann m.a. í Kastljós ásamt Gunnari Baldvinssyni, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins, til þess að ræða málin. Í kjölfarið voru innleidd lög um fyrstu fasteign sem nýst hefur fjölda fólks sem eru að koma inn á markaðinn í fyrsta sinn.

Kristófer Már hyggst forgangsraða í þágu þriggja mála á vettvangi Almenna lífeyrissjóðsins. Þau eru að tryggja hámarksávöxtun á sparnaði sjóðfélaga, aukið valfrelsi við ávöxtun séreignarsparnaðar og að efla áhuga fólks á lífeyrismálum.

„Ég mun fyrst og fremst beita mér fyrir því að sjóðfélagar geti átt áhyggjulaust ævikvöld, enda eðlilegt að þær mikilvægu stéttir sem standa að baki sjóðnum geti það eftir að hafa lagt til samfélagsins alla starfsævina. Þar mun ég ekki láta staðar numið, heldur vil ég einnig þróa leiðir til þess að auka valfrelsi sjóðfélaga til að ávaxta séreignarsparnað sinn. Slík breyting hefur hvorki áhrif á samtryggingasjóð né séreignarsparnað annarra sjóðfélaga, en gerir okkur sjóðfélaga að virkari þátttakendum í fjárfestingum sjóðsins. Ég hlakka til að vinna með öðru stjórnarfólki, starfsfólki og sjóðfélögum að útfærslum að auknu frelsi, nái ég kjöri.“

Þá hyggst Kristófer Már einnig nýta tíma sinn í stjórn til þess að vekja áhuga fólks á lífeyrismálum.

„Ég tel að jafningjafræðsla sé besta leiðin til þess að kynna lífeyrismál fyrir ungu fólki, sem er ekki einu sinni hálfnað á vegferð sinni að eftirlaunaaldri. Almenni lífeyrissjóðurinn hefur verið í fararbroddi í kynningarmálum og vil ég sem stjórnarmaður stuðla að aukinni þekkingu og áhuga meðal ungs fólks á lífeyrismálum og sýna því fram á að lífeyrismál eru ekki bara fyrir þá sem nálgast efri árin.“

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir