Húnvetningar úr leik í Mjólkurbikarnum eftir fjörugan leik
Lið Kormáks/Hvatar mætti galvaskt til leiks á Ásvelli í gær en þar stigu þeir Húnvetningar kraftmikinn knattspyrnudans við geðþekka Hafnfirðinga í liði KÁ. Leikurinn var liður í fyrstu umferð Mjólkurbikars karla en var jafnframt fyrsti leikur Kormáks/Hvatar frá því síðasta haust. Óhætt er að segja að leikurinn hafi dregist nokkuð á langinn, liðin skildu jöfn, 3-3, að loknum venjulegum leiktíma og bættu við sitt hvoru markinu í framlengingu og því þurfti að grípa til vító. Þar gekk verr að skora en fór þó á endanum svo að heimamenn í KÁ skoruðu úr tveimur vítum en gestirnir að norðan úr einu og duttu því úr leik.
Leikurinn var fjörugur og aðeins fimm mínútna gamall þegar Brynjar Bjarkason kom heimamönnum í KÁ yfir en þeir Hafnfirðingar tefla fram liði í 4. deildinni í sumar. Fyrirliðinn knái, Sigurður Bjarni Aadnegard, jafnaði á 11. mínútu. Markahrókurinn nýi í liði Húnvetninga, Ismael Sidibe, kom gestunum yfir eftir hálftíma leik og staðan 1-2 í hálfleik. Orkudrykkur heimamanna í hléinu hefur verið kröftugur því Brynjar jafnaði leikinn á 58. mínútu og Alexander Snær Einarsson kom KÁ yfir þremur mínútum síðar. Gestirnir voru ekki á því að slíðra sverðin og sóttu fram og jöfnuðu á 69. mínútu með öðru marki Ismaels. Staðan 3-3 í leikslok og því framlengt.
Í fyrri hálfleik framlengingar fékk Ingibergur Kort að líta gula spjaldið í annað sinn í leiknum og varð að hverfa af velli. Heimamenn gengu á lagið og komust yfir á 105. mínútu með marki frá Matthíasi Mána Örvarssyni en manni færri risu Húnvetningar upp úr öskustónni og Ismael Sidibe jafnaði leiinn á 118. mínútu og kórónaði þar með þrennuna í sínum fyrsta leik með Kormáki Hvöt. Í vítaspyrnukeppninni tókst aðeins Finni Karli Jónssyni að skora fyrir norðanmenn áður en úrslitin réðust og lið Kormáks/Hvatar því úr leik í bikarnum.
Á hinni rómuðu Aðdáendasíðu Kormáks sagði að leik loknum; „Margir voru móðir í leikslok en nú styttist í alvöru á Íslandsmóti. Aðdáendasíðan óttast ekkert þar enda stóðu menn sig mjög vel margir í þessari frumsýningu liðsins árið 2023.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.