Húnavaka á Blönduósi hefst í dag

Húnavaka verður haldin í 18. sinn núna um helgina og verður nóg um að vera fyrir gesti og gangandi. Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt og eitthvað í boði fyrir alla aldurshópa.

Húnavaka hefst formlega í dag, fimmtudag, þar sem Blönduósingar í þéttbýli og dreifbýli eru hvattir til að skreyta hús sín og götur og lífga upp á bæinn með fígúrum.

Í kvöld verður haldið bjórbingó í félagsheimilinu til að starta helginni fyrir þá sem hafa aldur til.

Á föstudeginum er margt í boði. Byrjum daginn á sirkusnámskeiði með Sirkus unga fólksins. Eyjólfur Kristjánsson verður með tónleika hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi. Leikhópurinn Lotta sýnir skemmtileg atriði sem unnin eru upp úr Litlu gulu hænunni. Það verður afmælishátíð í sveitaversluninni á Hólabaki þar sem boðið verður upp á pylsur og kökur og Eyþór Ingi kíkir við og tekur nokkur lög. Á föstudagskvöldið verður svo nýjung á hátíðinni, stórtónleikar á skólalóð Blönduskóla þar sem fram koma: Eyjólfur Kristjánsson, Húnabandið, Eyþór Ingi, Stuðlabandið og kynnar verða Sveppi og Villi. Endum svo kvöldið á stórdansleik með Stuðlabandinu í Félagsheimilinu á Blönduósi.

Dagskrá laugardagsins er stútfull. Byrjum daginn á golfmóti, skotmóti og Blönduhlaupi. Sirkus unga fólksins verður svo með vinnustofur þar sem allir eru velkomnir að kíkja við og læra sirkusatriði og fá að prófa ýmis sirkusáhöld og í kjölfarið verður svo haldin sirkussýning . Bílaklúbbur Akureyrar verður með torfæru í námunni við Kleifarhorn. Frá kl 13-17 á laugardeginum verður mikið um að vera fyrir framan félagsheimilið þar sem koma meðal annars fram Sveppi og Villi, Lína Langsokkur, Inga Rós Suska syngur nokkur lög. Veltibíllinn verður á svæðinu í boði SJÓVÁ svo verða hoppukastalar, andlitsmálning og blöðrur fyrir börnin, sýning á bílum hjá 4x4 klúbbnum í Húnavatnssýslum, markaðsstemning og margt fleira. Seinnipartinn á laugardaginn verður knattspyrnuleikur, Zumba party, sundlaugarpartý, orgeltónleikar í kirkjunni, kótilettukvöld á B&S, Gönguferð um Hrútey og svo verður brekkusöngur í Fagrahvammi um kvöldið. Líkt og á föstudagskvöldið þá endar dagurinn með balli í félagsheimilinu með Jónsa, Regínu og hljómsveit.

Á sunnudeginum verður sápurennibraut í kirkjubrekkunni og veltibíllinn í boði SJÓVÁ verður á skólalóðinni. Þá verður boðið upp á skemmtilega gönguferð fyrir fjölskylduna. Tvennir tónleikar verða á sunnudeginum. Blönduósingurinn Halli Guðmunds verður með útgáfutónleika í kirkjunni og svo verða stofutónleikar á Heimilisiðnaðarsafninu þar sem Helga Rós Indriðadóttir syngur og píanóleikari er Eva Þyrí Hilmarsdóttir. Við endum svo helgina með léttu og skemmtilegu jóga í kvenfélagsgarðinum.

 

Á Blönduósi er ein glæsilegasta sundlaug landsins sem er opin alla helgina. Einnig er Heimilisiðnaðarsafnið og Minjastofa Kvennaskólans og Vatnsdæla á refli með opið um helgina. Þess má geta að Shoplifter er með útilistasýningu í Hrútey sem er opin allan sólahringinn. Flugklúbbur Blönduóss bíður einnig upp á útsýnisflug. Á Blönduósi eru margir gistimöguleikar, tjaldsvæði og góðir veitingastaðir.

Hvetjum alla til að gera sér ferð á Blönduós um helgina og sjá hvað bærinn og hátíðin hefur upp á að bjóða. Dagskrá Húnavöku er hægt að nálgast á facebooksíðu Húnavöku www.facebook.com/hunavaka

 /fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir