Holtavörðuheiði opnuð á ný
Rétt upp úr klukkan 12 í dag var Holtavörðuheiðinni lokað út af slæmum akstursskilyrðum. Reiknað var með því að vegurinn myndi opna á ný um hálf þrjú en upp úr klukkan hálf tvö var heiðin opnuð á ný en vegfarendur hvattir til að aka varlega.
Mikil bílaröð hafði myndast við heiðina og að sögn Bjarna Helgasonar í samtali við Mbl.is var þar blindbylur og nær ekkert skyggni. Bjarni er íþróttafréttamaður Morgunblaðsins og er á leiðinni á fjórða leik Tindastóls og Vals sem fram fer á Sauðárkróki í kvöld, líkt og ábyggilega margir í hans sporum í dag.
Feykir hafði samband við Helga Sæmund Guðmundsson en hann er á leiðinni norður að skemmta í partýtjaldinu fyrir leik kvöldsins, líkt og hann hefur gert fyrir alla leiki Tindastóls í úrslitakeppninni. Helgi rétt slapp yfir heiðina áður henni var lokað.
"Ég rétt hafði þetta, þeir lokuðu henni meðan ég var á heiðinni, ég er á Blönduósi núna, þetta er fínt bara eftir heiðina."
Að sögn Helga hefur heiðin verið skemmtilegri að fást við á þessum tíma árs.
"Hún var ekki skemmtileg, við vorum á 20 alveg svona mest alla leiðina, þurftum oft að stoppa því að vörubílar þveruðu veginn, spóluðu bara, komust ekki neitt. En þetta hafðist, við erum á sumardekkjum."
Vonandi komast allir norður í dag sem vilja en um tíma sátu dómarar leiksins fastir á heiðinni líkt og Vísir greindi frá.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.