,,Held að ég sé ánægðust með peysuna sem ég var að klára á mömmu,,

Brynja Sif Harðardóttir býr á Sauðárkróki með kærastanum sínum, Hannesi Inga Mássyni og syni þeirra Óliver Mána sem verður tveggja ára í desember. Brynja er á lokaári í miðlun og almannatengslum við Háskólann á Bifröst og vinnur á leikskólanum Ársölum.

Hvernig byrjaðir þú og hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Ég lærði slétt og brugðið í grunnskóla bara svona eins og flestir. Þegar að ég var í fjölbrautaskóla kom einhver smá áhugi fyrir prjóni og Kristbjörg Kemp, góð vinkona mín, hjálpaði mér að byrja á peysu sem ég kláraði reyndar aldrei, en það er á planinu að taka hana upp aftur. Þegar ég varð síðan ólétt af Óliver Mána haustið 2020, byrjaði ég að hekla teppi og eftir að hann fæddist prjónaði ég fyrstu peysuna mína og hef ekki hætt að prjóna síðan.

Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Núna undanfarið finnst mér mjög skemmtilegt að prjóna gatamynstur en ég prjónaði peysu á mömmu mína og eina ungbarnapeysu nýlega með þannig mynstri. Annars finnst mér skemmtilegast að prjóna barnaföt.

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Ég var að byrja á peysunni Monday Sweater frá Petite Knit á mig, og síðan er ég með tvær húfur á Óliver Mána, eina Eyrnaslapa frá Hlýna design og Lillebjørn húfu frá Knitting for Olive.

Hvar færðu hugmyndir? Aðallega í gegnum Instagram en þar er ég að fylgja mörgum flottum prjónurum og hönnuðum. Mínar uppáhalds uppskriftir eru frá Petite Knit.

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Ég held að ég sé ánægðust með peysuna sem ég var að klára á mömmu, opin Ella sweater frá Lene Holm Samsøe úr æðislegu garni frá Knitting for Olive.

Eitthvað sem þú vilt bæta við? Mæli svo bara með því fyrir tilvonandi mæður að læra að prjóna, það er ekkert betra en að sjá þessi litlu kríli í fötum sem maður prjónaði sjálfur. Síðan fannst mér líka svo notalegt að geta gripið í prjónana í fæðingarorlofinu.

 

Áður birst í tbl. 40 Feykis 2022.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir