Gular og appelsínugular viðvaranir fram á sunnudag

Suðvestan hvassviðri eða stormur verður seint í kvöld og suðvestan stormur eða rok víða um land á morgun með kunnuglegum veðurviðvörunum, gulum og appelsínugulum. Á Norðurlandi vestra tekur gul viðvörun gildi seint í kvöld með sunnan og suðvestan hvassviðri eða stormi sem breytist appelsínugult ástand á hádegi á morgun með roki allt upp í 28 m/s.

Á heimasíðu Veðurstofunnar segir að horfur næsta sólarhringinn á landinu sé eftirfarandi:
Suðlæg átt 10-18 m/s og rigning eða skúrir en slydda eða snjókoma í fyrstu um landið norðaustanvert. Hlýnandi, hiti 1 til 7 stig síðdegis. Gengur í suðvestan 18-25 m/s norðanlands seint í kvöld. Heldur hægari í nótt og víða rigning.Gengur í sunnan og suðvestan 18-28 m/s eftir hádegi á morgun með skúrum, hvassast um norðvestanvert landið, en áfram úrkomulítið norðaustanlands. Hiti 4 til 9 stig. Heldur hægari vindur annað kvöld og víða él.

Strandir og Norðurland vestra

Sunnan og suðvestan 18-25 m/s með snörpum vindhviðum við fjöll, og hlýnar einnig sem getur leitt til hálku á meðan snjó tekur upp. Getur verið varasamt fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi og fólk er hvatt til að ganga frá lausum munum.

Á morgun er gult ástand fram að hádegi og þá er gert ráð fyrir sunnan og suðvestan 18-25 m/s með snörpum vindhviðum við fjöll. Getur verið varasamt fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi og fólk er hvatt til að ganga frá lausum munum.

Eftir hádegið sækir Kári í sig veðrið með sunnan og suðvestan stormi eða roki og verður þá appelsínugult ástand sem gildir fram á miðja nótt. Vindhraði gæti farið upp í 20-28 m/s og varað er við snörpum vindhviðum við fjöll, einnig er búist við éljum um kvöldið með takmörkuðu skyggni. Getur verið varasamt fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi og hætt við foktjóni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir