Gul veðurviðvörun fram á morgun
Feykir sagði frá því fyrir helgi að útlit væri fyrir sæmilegt veður um helgina og útlit fyrir að skíðasvæðið í Stólnum yrði opið báða dagana. Skjótt skipast veður í lofti en það slapp þó til á laugardeginum en í dag, sunnudag, hefur veðrið verið leiðinlegt hér norðanlands, skíðasvæðið því lokað og þegar þetta er skrifað hefur Þverárfjallsvegi einnig verið lokað. Gul veðurviðvörun er í gildi á Norðurlandi vestra og útlit fyrir að svo verði fram á morgun.
Ansi hvasst er á svæðinu en vindur er á bilinu 12-20 m/sek og töluvert hvassara í hviðum. Það dregur hægt úr vindi á morgun (mánudag) og gert ráð fyrir éljum eða snjókomu fram á kvöldið.
Sem fyrr segir hefur Þverárfjallsvegi verið lokað en á Vatnsskarði er stórhríð þó enn sé vegurinn opinn. Hálka og skafrenningur er víðast hvar á Þjóðvegi 1 á Norðurlandi vestra og vindur víða um 20 m/sek. Snjór og krapi er á Öxnadalsheiði og í Öxnadal, hálka og stórhrið er á Holtavörðuheiði og þar er bálhvasst.
Ferðalangar ættu því að kynna sér aðstæður og veðurspá næsta sólarhringinn því ekki er ólíklegt að vegum verði lokað.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.