Guðmundur Ingi sækist eftir varaformennsku í VG áfram, en breytingar verða í stjórn. Jana Salóme vill verða ritari VG

Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Mynd af VG.is
Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Mynd af VG.is

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs tilkynnti á flokksráðsfundi VG, sem fram fór í gær í Hafnarfirði, að hann sækist eftir varaformennsku í hreyfingunni áfram. Hann og Katrín Jakobsdóttir formaður fluttu bæði ræður til félaganna fyrir fullu húsi í Golfskála Keilis í Hafnarfirði í gærmorgun. Breytingar eru fyrirsjáanlegar í stjórn VG á landsfundi í mars, því Sóley Björk Stefánsdóttir, ritari hreyfingarinnar tilkynnti á sama tíma að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér áfram. Ræðu Guðmundar má nálgast HÉR.

Í tilkynningu frá flokknum kemur fram að Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi VG á Akureyri, hafi tilkynnt að hún myndi sækjast eftir kjöri í embætti ritara. Þá verður einnig kosið um gjaldkera VG á landsfundi, almenna stjórnarmenn og varafulltrúa. Framboðsfrestur til stjórnar VG rennur út í byrjun landsfundarhelgar, en landsfundur verður haldinn 17. – 19. mars á Akureyri.

Almenn stjórnmálaályktun og aðrar er fjalla um útlendingamál, stofnun þjóðgarðs á hálendinu og veiðigjöld voru afgreiddar. „Fundurinn brýnir stjórnvöld í baráttunni gegn loftslagsvánni, þar sem orkuskipti gegna mikilvægu hlutverki en nægja ekki ein og sér til að Ísland nái metnaðarfullum markmiðum sínum um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040 og 55% samdrátt í losun á eigin ábyrgð fyrir 2030,“ segir m.a. í stjórnmálaályktun VG.

Fundurinn fagnar því að heildarstefnumótun í málefnum innflytjenda sé hafin og segir í ályktun um útlendingamál að mikilvægt sé að henni verði flýtt og að henni lokinni verði skoðaðar breytingar á löggjöf um útlendinga og löggjöf um málefni innflytjenda.

Lögð er áhersla á að vinnu við stofnun þjóðgarðs á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu verði flýtt eins og hægt er og þá er vilji fundarins að hækka veiðigjöld á sjávarútvegsfyrirtæki, þar sem sérstaklega er tekið tillit til smærri útgerða.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir