Graflax en engin sósa

Ferðamenn njóta nálægðarinnar við hesta í náttúru Norðurlands vestra. MYND: ÓAB
Ferðamenn njóta nálægðarinnar við hesta í náttúru Norðurlands vestra. MYND: ÓAB

Í haust samdi SSNV við ráðgjafafyrirtæki Hjartar Smárasonar um gerð stöðugreiningar og stefnumótunar fyrir Norðurland vestra sem áfangastaðar. Hjörtur hefur um árabil unnið að verkefnum tengdum ímyndarmálum landssvæða og þróun ferðaþjónustu. Nú um ármótin lauk fyrsta hluta í stefnumótunarvinnunnar Kúrsinn stilltur og má finna skýrslu þar sem farið er yfir helstu niðurstöður Hjartar.

Í samantekt sinni segir hann m.a. að á Norðurlandi vestra megi finna hlaðborð af áhugaverðum áfangastöðum, sögustöðum og upplifunum fyrir ferðamenn. Vandamálið sé hins vegar að „...þeir liggja ekki á neinu einu hlaðborði, heldur eru þeir meira eins brauðmolar sem eru á víð og dreif og án nokkurar tengingar. Graflax en engin sósa.“

Erfitt sé fyrir ferðamenn að fá skýra sýn af því hver helst styrkleiki svæðisins er. „Þó að það séu nokkuð skýr þemu í því sem er í boði þarf að miðla því á sterkari hátt, þannig að þeir styrkleikar verða hluti af ímynd og aðdráttarafli svæðisins,“ segir Hjörtur í skýrslunni.

Fram kemur að skortur á gistirými, og þá sérstaklega í formi stærri hótela, sé eitt stærsta vandamálið í augnablikinu og það vandamál muni aukast fyrir tilstilli aukins fjölda ferðamanna sem fljúga beint á Akureyri. Hjörtur segir Norðurland vestra mjög áhugaverðan áfangastað og henti mjög vel til þróunar á hæglátri ferðamennsku þar sem gestir dvelji í nokkra daga „...og sökkvi sér dýpra í allt það sem áfangastaðurinn hefur upp á að bjóða, hvort sem er ævintýraferðamennska eða daglegt líf í samfélaginu. Hæglát ferðamennska getur líka þýtt lengri dvöl, í vikur og jafnvel mánuði, þar sem gesturinn kemur ekki bara til þess að sjá, heldur til að verða hluti af samfélaginu í einhvern tíma, og vinna að annað hvort listsköpun sinni eða vinnuverkefnum. Nú þegar eru allaveganna tvö dæmi um slík verkefni, listasmiðja á Skagaströnd og tónlistarstúdíó í Fljótum.“

Hægt er að skoða stöðugreininguna, fyrsta hluta stefnumótunarvinnunnar, á síðu SSNV >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir