Fjögur verkefni á Norðurlandi vestra hlutu styrk

Staðarbjargarvík er einstök perla og stefnt er að því að bæta aðgengi að henni. MYND: FRÍÐA EYJÓLFS
Staðarbjargarvík er einstök perla og stefnt er að því að bæta aðgengi að henni. MYND: FRÍÐA EYJÓLFS

Í gær hlutu 28 verkefni styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2023 fyrir alls 550 milljónir. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra tilkynnti um úthlutunina í Vík í Mýrdal. Þrjú verkefni í Skagafirði hlutu styrk upp á samtals 23,8 milljónir króna og þá fékk fasi 2 við Spákonufellshöfða á Skagaströnd styrk upp á 11,4 milljónir króna.

Í frétt á vef Skagastrandar segir að mikil ánægja sé með úthlutunina en í fyrra fékk sveitarfélagið styrk til hönnunar og framkvæmda innan fólksvangsins sem fól í sér að gera fuglaskoðunarhús og lagfæra stíga og bílastæði.

„Hönnun á fuglaskoðunarhúsinu er lokið og verið er að skipuleggja framkvæmdir á sumarmánuðum 2023. Samkomulag hefur náðst við verktaka úr heimabyggð, frá Skagaströnd og Skagafirði, um framkvæmd fyrsta fasa verkefnisins og hefst smíði fuglaskoðunarhúss á næstu vikum. Húsið verður sett upp í sumar um leið og aðstæður leyfa. Húsið verður smíðað úr íslensku greni og ösp, en búið er að tryggja aðgengi að efninu frá Skógræktinni. Verkefnið er unnið í samstarfi við Umhverfisstofnun og er í samræmi við aðgerðaráætlun sveitarfélagsins sem kemur fram í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

Sá styrkur sem hlaust í úthlutun sjóðsins 2023 er vegna áframhaldandi aðgerða á Spákonufellshöfða. Aðgerðirnar fela í sér uppfærslu á fræðsluskiltum á höfðanum sem komin eru til ára sinna, að gera hjólastólafæran göngustíg frá bílastæði inn á höfðann og lítinn útsýnispall við enda þessa aðgengilega stígs,“ segir m.a. í fréttinni.

Verkefnin þrjú sem hlutu styrki í Skagafirði eru öll austan megin í firðinum. Tveimur og hálfri milljón var veitt til bætts aðgengis að sviðsetningu Haugsnesbardaga, einu stærsta, ef ekki stærsta, útilistarverki landsins sem Sigurður Hansen á heiðurinn af. Þá fengust 8,3 milljónir í verkefnið Uppbygging Hóla í Hjaltadal sem áfangastaðar fyrir ferðamenn. Hæsti styrkurinn á Norðurlandi vestra var ipp á 13 milljónir króna og kom í hlut verkefnisins Staðarbjargavík – hönnun útsýnispalla og stíga.

Staðarbjargavík er skammt frá sundlauginni á Hofsósi og er sögð vera höfuðstaður álfabyggðar í Skagafirði. Kannski vissara að verkið verði unnið í góðri samvinnu beggka vídda – svona miðað við fyrri reynslu í annarri fjölmennri álfabyggð í Hegranesi þegar vegur var lagður þar.

Alls barst 101 umsókn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða 

Að þessu sinni barst 101 umsókn um styrki í framkvæmdasjóðinn, samtals að fjárhæð 2.037.984.107 kr., til verkefna að heildarfjárhæð 6.401.045.030 kr. Af innsendum umsóknum voru 24 ekki taldar uppfylla formkröfur sjóðsins eða falla utan verksviðs hans.

„Stjórn Framkvæmdasjóðsins lagði til að alls 28 verkefni yrðu styrkt að þessu sinni, samtals að fjárhæð 550.000.000 kr. Ráðherra féllst á tillögur stjórnar og hefur Ferðamálastofu verið falið að ganga til samninga við styrkþega,“ segir í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir