Er einhver búinn að gleyma leiknum í kvöld...?
Það er hátíðardagur á Króknum í dag, laugardag í páskahelginni, og ástæðan er að sjálfsögðu körfubolti. Fyrsti heimaleikur Tindastóls í úrslitakeppninni fer fram í kvöld og mótherjarnir eru Keflvíkingar. Tindastóll vann fyrsta leik liðanna sl. miðvikudagskvöld eftir framlengingu og því mikið undir hjá báðum liðum í kvöld. Í gær var Síkið og næsta nágrenni gert klárt fyrir veisluna.
Feykir spurði í gær Dag Baldvins, formann körfuknattleiksdeildar Tindastóls, hversu mörgum áhorfendum hann reiknaði með í Síkið og sagðist hann reikna með nóg af fólki, fullu húsi og spurður út í ganginn í miðasölunni sagði hann að þegar væri búið að selja helling. Hann minnir á að stuðningsmannatjaldið sunnan íþróttahússins opnar kl. 16:30 og þar verður lifandi tónlist, hammarar og drykkir. Reikna má með fínu veðri, ofurhægri suðaustanátt og hita um 5 gráðurnar. Það er því ekki um annað að ræða en að hafa gaman.
Króksarar eru hvattir til að koma gangandi á leikinn ef það er séns enda reiknað með talsverðri bílastöppu. Leikurinn hefst kl. 19:15.
Páskaskemmtun á páskadegi
Veislan heldur síðan áfram á páskadag því Molduxar skella í eitt gott 12 liða páskamót sem hefst kl. 11 í fyrramálið í Síkinu þar sem hitað verður upp fyrir húllumhæið sem verður sömuleiðis í Síkinu annað kvöld.
Þar verður Páskaskemmtun körfuknattleiksdeildar Tindastóls þar DJ Egill Spegill, Herra Hnetusmjör og hin ómætsteæðilega Danssveit Dósa keyra upp fjörið. Miðasala fer fram á Stubb en húsið verður opnað kl. 22:30 en ballið stendur frá ellefu að kvöldi til tvö um nóttina.
Eins og sjá má í Sjónhorninu góða þá er þétt dagskrá í Skagafirði þessa helgina og kirkju- sem körfuþyrstir ættu að finna sér nóg að gera.
- - - -
Myndirnar sem hér fylgja eru frá Sigríði Ingu Viggós og Gústa Kára.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.