Elskar að velta sér upp úr drullu!
Það þekkja flestir hana Sigríði Elfu sem býr á Króknum og vinnur á leikskólanum Ársölum. Sigríður Elfa er dóttir Eyjólfs Sveinssonar vinnuvélastjóra og Ingibjargar Axelsdóttur og er elst af fjórum systkinum. Sigríður Elfa sést oft hjóla um bæinn með hund sér við hlið sem virðist hlýða henni í einu og öllu eins og góður hundur á að gera með eiganda sínum. Hann lætur það sem á vegi þeirra verður ekki laða sig út í einhverja vitleysu heldur fylgir henni hvert sem Sigríður Elfa fer. Þessi litla snót heitir Loppadís og er í daglegu tali kölluð Loppa. Loppa er íslenskur fjárhundur með dass af Border Collie og kannski einhverju smá fleiru.
Hvernig eignaðist þú Loppu?
Friðrik bróðir minn og kærastan hans áttu Loppu upphaflega en þegar fjölskyldan stækkaði gátu þau ekki haft hana lengur og hún kom til mín. Þau fengu hana frá Dýrahjálp Íslands og hún var um það bil þriggja ára þegar ég fékk hana. Nú er Loppa að verða öldruð því hún er búin að vera hjá mér í níu ár og hún er því líklega 12 ára gömul, en það er eitthvað á reiki.
Hvað er skemmtilegast Loppu?
Það sem er skemmtilegast við Loppu er hvað hún er hlýðin. Hún getur verið laus þegar við förum út að labba eða hjóla og hún fer aldrei frá mér. Ég segi henni að fara út af ef hún fer upp á veg og hún hlýðir því eins og skot. Ég þarf ekki einu sinni að segja neitt það er nóg að benda. Hún hefur ekki alltaf verið svona hlýðin því hún var mjög óþekk þegar hún var yngri og ég fór á mörg námskeið hjá Steinari löggu sem kenndi mér að stjórna henni. Hann hjálpaði mér mjög mikið að kenna henni. Henni finnst mjög gaman að sulla og þegar Kátur vinur hennar var lítill þá fór hún út í sjó eða vatn til að fá frið fyrir honum, það virkar ekki lengur því núna er hann er orðinn sundhundur líka. Hún á líka vin sem heitir Mjölnir og er minkahundur sem Jóna systir mín á. Þegar hann var yngri var hann alltaf að stríða henni en nú eru þau ágæt saman.
Hvað er erfiðast?
Loppa verður mjög æst þegar eitthvað stendur til og eins ef fólk labbar fram hjá húsinu og hún er úti. Það er ekki nógu gott því við búum fyrir neðan Kirkjustíginn og þar er alltaf mikil umferð. Þegar við erum að undirbúa göngutúra verður hún svo spennt að hún hoppar og hleypur í hringi. Hún er á hjartalyfjum svo að það er ekki gott fyrir hana og hún hefur tvisvar fengið flog þar sem hún dettur alveg út í smástund.
Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af Loppu?
Loppu finnst skítahrúgur og þess háttar mjög spennandi og þarf alltaf að velta sér upp úr þeim ef hún mögulega getur. Í haust var hún frammi í sveit og þegar að var gáð var hún alsæl að velta sér á túninu sem var nýbúið að bera kúamykju á. Hún var skoluð í læk til að hægt væri að setja hana í bílinn og fékk svo sápubað þegar heim var komið, en lyktin var lengi að fara.
Feykir þakkar Sigríði Elfu kærlega fyrir að svara þættinum ég og gæludýrið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.