Elín og Jóhannes á Torfalæk fengu Landstólpa Byggðastofnunar
Á ársfundi Byggðastofnunar, sem haldinn var á Fosshótel Húsavík á dögunum, var hjónunum Elínu S. Sigurðardóttur og Jóhannesi Torfasyni, á Torfalæk í Austur-Húnavatnssýslu, afhentur Landstólpinn, samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar fyrir árið 2023.
Var þetta í tólfta sinn sem Landstólpinn er afhentur en hugmyndin að baki viðurkenninguna er að efla skapandi hugsun og bjartsýni og er því hugsaður sem nokkurs konar hvatningar- og bjartsýnisverðlaun. Á heimasíðu stofnunarinnar kemur fram að í ár hafi samtals sautján tilnefningar borist og varð niðurstaða dómnefndar sú að veita Elínu og Jóhannesi, eins og áður sagði, en þau hafa haft gríðarlega jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt með leiðtogahæfileikum sínum, sneitt hjá átökum og laðað aðra íbúa með sér til að byggja upp samfélagið í gegnum Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi og Ámundakinn ehf., sannkallaðir burðarásar í sínu samfélagi. Viðurkenningargripurinn í ár, sem afhentur var af þeim Helgu Harðardóttur, sérfræðingi á Þróunarsviði, og Andra Þór Árnasyni, sérfræðingi á Lánasviði, var í formi ljósmyndaverks eftir Gyðu Henningsdóttur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.